Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Flóttamenn velkomnir til Akureyrar

21.08.2015 - 13:19
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Akureyrarbær hefur lýst yfir áhuga á að taka við flóttamönnum sem nú dvelja í flóttamannabúðum á Ítalíu og Grikklandi. Íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að taka á móti allt að 50 flóttamönnum á þessu ári og því næsta.

 

Málið var tekið fyrir hjá bæjarráði Akureyrar þar sem samhljómur var um að veita flóttamönnunum aðstoð. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, segir að ekki hafi verið rætt um hversu mörgum flóttamönnum Akureyrarbær geti tekið á móti en ljóst sé að öll þjónusta sé til staðar.

„Það hefur ekki verið rætt um hver fjöldinn verður en hins vegar er Akureyri mjög heppilegur staður til þess að taka á móti svona flóttamönnum,við höfum hér innviði til þess að takast á við svona verkefni,“ segir Guðmundur. Akureyrarbær hefur nú þegar óskað eftir viðræðum við velferðarráðuneytið um að sveitarfélagið geti við fyrsta tækifæri tekið á móti flóttafólki. „Við erum að horfa til þess að ef allir öxluðu þessa samfélagslegu ábyrgð sem við erum þó að gera hér, þá væri hugsanlega hægt að leysa þetta stóra vandamál sem er að skapast nú um stundir.“

 

Árið 2003 tók Akureyrarbær á móti 24 flóttamönnum frá fyrrum Júgóslavíu. Allar fjölskyldurnar sem þá komu búa enn á Akureyri og hafa aðlagast vel að sögn Guðmundar. Með þessu vilji Akureyringar ríða á vaðið og hvetja önnur sveitafélög til þess að taka flóttamönnum opnum örmum.