
Flóttamaður ákærður eftir sjálfsvígstilraun
Ravinder Singh er frá Punjabi héraði í Indlandi. Hann er á fertugsaldri og freistaði þess að komast sjóleiðina til Ástralíu og sækja um hæli. Líkt og aðrir flóttamenn sem nást á sjóleiðinni til Ástralíu var honum komið fyrir í flóttamannabúðum í Manus. Þar dvelur hann ásamt um 500 flóttamönnum og umsækjendum um alþjóðlega vernd.
Á föstudag læsti Singh sig inni í gámnum sem honum er úthlutað í flóttamannabúðunum. Þar kveikti hann í, og náði eldurinn að læsa sig í tveimur herbergjum í búðunum til viðbótar áður en náðist að slökkva hann. Singh var fluttur til Port Moresby á meginlandi Papúa Nýju-Gíneu þar sem gert var að brunasárum sem hann hlaut í andliti og hægri hönd. David Yapu, lögreglustjóri á Manus, segir að Singh hafi verið yfirheyrður á sjúkrahúsinu í gær, og hans bíði ákæra þegar hann útskrifast þaðan.
Flóttamenn sem eru í haldi á Manus voru áður í flóttamannabúðum á vegum ástralskra stjórnvalda. Nú hefur þeim verið komið fyrir í einkareknum búðum, á meðan þeir bíða þess að unnið sé úr umsóknum þeirra. Ástralía neitar að samþykkja umsóknir þeirra sem reyna að koma sjóleiðina til landsins, og hafa þess í stað reynt að gera samninga við öruggt þriðja land. Bandaríkin eru eitt þeirra og hafa nokkrir flóttamenn verið fluttir þangað. Ferlið er hins vegar langt, og hafa margir flóttamannanna dvalið í Manus árum saman.
AFP fréttastofan greinir frá því að fréttamenn á hennar vegum hafi heimsótt búðirnar í Manus í fyrra. Aðstæður flóttamanna eru þar bágar og þeir sem þar dvelja kljást margir hverjir við þunglyndi. Mannréttindasamtök og Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt framkomu ástralskra stjórnvalda í garð flóttamannanna. Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, segir stefnu stjórnvalda hins vegar nauðsynlega til að stemma stigu við smygli á fólki og til að koma í veg fyrir drukknun flóttamanna á hafi úti.