Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flóttafólk setur svip á bæjarlífið

18.07.2019 - 21:54
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir
Flóttafólk sem fluttu hingað til lands í vor hafa glætt lífi í bæjarlíf Blönduóss og Hvammstanga. Í dag var haldin sérstök móttökuveisla á Blönduósi til heiðurs flóttafólkinu í bænum.

Tekið var á móti 50 manna hópi flóttafólks um miðjan maí og flutti fólkið annars vegar á Hvammstanga og hins vegar á Blönduós. Fólkið flúði frá Sýrlandi til Líbanon þar sem það dvaldi í flóttamannabúðum áður en það flutti hingað til lands. Nú eru um tveir mánuðir liðnir frá því að fólkið flutti og nú þegar er það farið að setja sinn brag á bæjarlífið á stöðunum. Síðdegis í dag var haldið hóf til heiðurs flóttafólkinu á Blönduósi sem jafnframt markar upphaf Húnavöku. 
 

„Þetta er mikil áskorun að setjast svona að í nýju landi, frá grunni. En mér finnst þau bara öll hafa staðið sig ótrúlega vel og allt gengið vonum framar. Bæjarbúar tekið vel á móti þeim og allir að leggja sitt af mörkum að styðja þau í því. Við erum búin að vera að dreifa orðalistum hingað og þangað. Þetta er svona samvinnuverkefni bæjarins að styðja við þessa tungumálakennslu. Það er ótrúlega fallegt að sjá hvernig það hefur orðið að þessu samfélagsverkefni svolítið,“ segir Þórunn Ólafsdóttir, verkefnastjóri móttöku flóttafólks hjá Blönduósbæ.

Eitt af stærstu áskorunum flóttafólksins er að ná tökum á íslensku, en Þórunn segir að það gangi ótrúlega vel.

„Það eru bæði börn og fullorðnir í íslenskukennslu nokkrum sinnum í viku og það hefur bara gengið ótrúlega vel. Og mér finnst samfélagið  ótrúlega virkt í að styðja þau í því. Við erum búin að vera að dreifa orðalistum hingað og þangað. Þetta er svona samvinnuverkefni bæjarins að styðja við þessa tungumálakennslu“ segir Þórunn

Móttaka flóttafólksins er samstarfsverkefni sveitafélaganna Blönduóssbæjar og Húnaþings vestra með aðkomu Rauða krossins sem  hefur lagt móttökunni lið með ýmsum hætti.

„Okkar aðkoma er sú að við setjum húsgögn inn í íbúðirnar, sem sveitarfélagið reddar. Við reddum fötum frá Rauða kross búðunum. Síðast en ekki síst stuðningsfjölskyldur og sjálfboðaliðar sem verða vinir fólksins, flóttafólksins svona fyrstu mánuðinaáður en þau eignast svona sína eðlilegu vini,“ sgir Guðrún Margrét Ólafsdóttir, verkenfnastjóri Rauða Krossins við móttöku flóttafólks í Húnaþingi.

Þórunn segir tækifæri fólgin í því fyrir smærri bæjarfélög að taka á móti flóttafólki. Hver einstaklingur hafi mikil áhrif á samfélagið.

„Mér finnst ákveðinn kostur að við séum með samfélag í minni kantinum.  Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og það er allt þorpið að leggja sitt af mörkum í þessu verkefni,“ segir Þórunn.