Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Flokkurinn í mikilli naflaskoðun

25.08.2015 - 08:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, segist reiðubúinn til þess að taka að sér trúnaðarstörf innan flokksins þó það sé ekki hans persónulegi metnaður að fá formannstitil við nafn sitt. Hann segist vissari en nokkru sinni fyrr um erindi flokksins í íslenskri pólítík.

„Við erum búin að vera í mikilli naflaskoðun og það hefur verið mjög uppörvandi að finna aftur ástríðuna fyrir stjórnmálunum“ segir Óttarr en hann var gestur Hallgríms Thorsteinssonar í Morgunútgáfunni í morgun. Hann segist vissari en áður um erindi Bjartrar framtíðar og gilda flokksins í íslenskri pólítík.

Ársfundur Bjartrar framtíðar fer fram 5. september og segist Óttarr ætla að bjóða fram krafta sína í forystu flokksins. „Ég hef engan persónulega metnað að fá eitthvað forskeyti framan við nafnið mitt en mér finnst það bara mín skylda sem þingmaður flokksins að bjóða mig fram eða vera opinn fyrir því að taka að mér einhver trúnaðarstörf.“