Flokksráð VG kallað saman á miðvikudag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur verið kallað saman til fundar síðdegis á miðvikudag þar sem sáttmáli ríkisstjórnar flokksins með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki verður borinn upp til samþykktar. Fundurinn er opinn öllum félögum í flokknum en aðeins fulltrúar í flokksráði hafa atkvæðisrétt.

Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel, hefst klukkan fimm síðdegis og gert er ráð fyrir að hann standi til níu um kvöld. Formaðurinn Katrín Jakobsdóttir og þingflokksformaðurinn Svandís Svavarsdóttir munu segja frá stjórnarmyndunarviðræðunum, kynna stjórnarsáttmálann „og fyrstu skref fyrirhugaðrar ríkisstjórnar undir forystu Katrínar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs,“ eins og segir í dagskrá fundarins.

Gert er ráð fyrir tveimur klukkustundum í umræður, með stundarfjórðungslöngu kvöldhressingarhléi, og kosningu um sáttmálann klukkan 20.15.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi