Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flokkarnir fengu nær 700 milljónir í fyrra

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnmálaflokkar landsins fengu 678 milljónir króna í fyrra í framlög frá ríki, sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum auk annarra rekstrartekna sinna. Sjálfstæðisflokkurinn hafði úr mestu fé að spila, samtals 239 milljónum króna sem jafngilda rúmlega þriðjungi allra fjármuna sem flokkarnir öfluðu sér í fyrra.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í útdráttum úr ársreikningum stjórnmálaflokka sem Ríkisendurskoðun birti í dag. Stjórnmálaflokkarnir fá fé úr nokkrum áttum. Þeir fá greiðslur úr ríkissjóði og sveitarsjóðum í samræmi við styrk þeirra í síðustu kosningum. Þessar greiðslur voru settar á þegar takmarkanir voru settar á hversu mikils fjár flokkar mættu afla sér hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Að auki fá flokkar styrki frá einstaklingum og hafa flestir aðrar rekstrartekjur.

Sjálfstæðisflokkurinn er tekjuhæstur í öllum flokkum. Hann fékk tæpar 97 milljónir króna úr ríkissjóði sökum þingstyrks síns og tæpar 18 milljónir króna frá sveitarfélögum vegna árangurs í sveitarstjórnarkosningum. Flokkurinn aflaði sér rúmlega nítján milljóna króna frá fyrirtækjum og fékk rúmlega 41 milljón króna frá einstaklingum. Loks hafði hann 64 milljónir króna í aðrar rekstrartekjur. 

Framsóknarflokkurinn, með 89 milljónir, fékk næstmest úr ríkissjóði og Samfylkingin var í þriðja sæti með 48 milljónir. Samfylkingin fékk rúmar ellefu milljónir frá sveitarfélögum landsins en aðrir flokkar, utan Sjálfstæðisflokks, voru allir með innan við tíu milljónir. 

Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Framsóknarflokkurinn fengu mest frá fyrirtækjum landsins. Sjálfstæðisflokkurinn rúmar 19 milljónir, sem fyrr segir, og Viðreisn sextán og hálfa milljón. Framsóknarflokkurinn fékk tæpar fjórtán milljónir króna í fjárframlög frá fyrirtækjum. Aðrir fengu um eða innan við sjö milljónir. Samkvæmt ársreikningum Bjartrar framtíðar og Flokks fólksins fengu þeir flokkar enga styrki frá fyrirtækjum. 

Sjálfstæðisflokkurinn bar höfuð og herðar yfir aðra flokka þegar kom að fjárframlögum einstaklinga. Þeir lögðu flokknum til 41 milljón af þeim 99 milljónum sem flokkarnir fengu samtals. Samfylkingin, Vinstri græn, Framsóknarflokkurinn og Viðreisn fengu á bilinu tíu til þrettán milljónir króna hver flokkur frá einstaklingum. Björt framtíð og Flokkur fólksins fengu minnst, á aðra milljón króna. 

Svokallaðar aðrar rekstrartekjur flokkanna skiluðu þeim samanlagt 110 milljónum króna. Þar af fékk Sjálfstæðisflokkurinn rúmlega helming, 64 milljónir króna og Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin sitt hvorar 20 milljónirnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV