Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flókið og erfitt að ná Eiði ÍS á flot

02.02.2020 - 20:07
Mynd: Jóhannes Jónsson / RUV
Það var flókið verk að ná bátnum Eiði úr Flateyrarhöfn og aðstæður erfiðar, segir kafarinn sem stýrði verkinu. Það tókst að koma í veg fyrir að olía og fleira rynni í höfnina. 

Sex bátar sukku þegar snjóflóðin skullu á Flateyri í síðasta mánuði. Búið var að ná fjórum bátum upp, en fyrir og um helgina var unnið að því að ná þeim stærsta upp, stálbátnum Eiði sem var á hvolfi í Flateyrarhöfn, en það var langviðamesta verkefnið og flókið.

„Já, það er nokkuð flókið. Það eru mörg atriði sem þurfa að vera í lagi og það er mjög auðvelt að klúðra þessu, ef ég segi sem svo. Menn þurfa að gera þetta í réttri röð og vita hvað þeir eru að gera,“ segir Kjartan Jakob Hauksson kafari og framkvæmdastjóri Sjótækni.

Að sögn Kjartans fór mikill tími og vinna í undirbúning og mikið af því var unnið neðansjávar. Jóhannes Jónsson myndatökumaður RÚV fór niður með köfurunum og fylgdist með undirbúningnum og vinnunni og tók myndir sem fylgja þessari frétt.  Áður en hægt var að hífa bátinn upp þurfti að rétta hann við í kafi.

Það voru því fjölmörg handtök sem þurfti að inna af hendi meðal annars að kafa undir bátinn þar sem hann flaut í höfninni og koma á hann festingum og fleira.  Áður en hægt var að hífa bátinn upp þurfti að loka honum svo hægt væri að dæla sjó úr honum og hann fylltist ekki jafnóðum aftur. Meðal þess sem var gert, var að loka fyrir alla glugga. Einnig þurfti að loka og þétta lestarlúgu og það tók á að loka dyrunum að stýrishúsinu. 

Þegar búið var að þétta var kafað meðfram bátnum og kannað hvort allt væri klárt, en aðstæður voru erfiðar, vírar og kaðlar út um allt og ekki auðvelt að sjá til. Á föstudag var allt klárt til að hífa en þegar Eiður var að komast á réttan kjöl slitnaði kaðall og honum hvolfdi aftur.

Í gær var reynt aftur og þá gekk allt að óskum og báturinn komst upp á yfirborðið á réttum kili. Fjölmargir tóku þátt í aðgerðum og segir Kjartan alla hafa staðið sig vel, en aðstæður hafi verið erfiðar.

„Já, frekar lélegt skyggni, sérstaklega til að byrja með. Þetta tekur allt tíma, flókið að vinna þetta og seinlegt en stærsti hlutinn af þessari vinnu er undirbúningur til að tryggja öryggi allra sem að komu að þessu og umhverfið, að það leki ekki úr þessu olía og annað, sem við náðum að gera fyllilega vel,“ segir Kjartan Jakob Hauksson.