Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Flogið yfir Öræfajökul

18.11.2017 - 09:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Almannavarnir fljúga yfir Öræfajökul í birtingu vegna vísbendinga um aukna virkni í jöklinum. Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi í gær í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi.

Björn Oddsson jarðeðlisfræðingur hjá almannavörnum segir að ferðin verði einnig notuð til að skoða og gera mælingar við Jökulsá á Fjöllum vegna rafleiðni sem mældist þar fyrir nokkru og við Kvíá. Einnig fara jarðvísindamenn frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands með vél Isavia til að gera ratsjármælingar á Mýrdalsjökli, Öræfajökli og Bárðarbungu.  

Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að ætlunin sé að nýta alla þá dagsbirtu sem hægt er. Tekin verði sýni í ánum eins og hægt er, bæði vatn og mögulega gas. Ekki verði hægt að gefa nánari upplýsingar fyrr en síðdegis í dag þegar vísindamennirnir snúa aftur úr fluginu. 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV