Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flóð og úrhelli ógna rúmri milljón flóttafólks

15.07.2019 - 05:57
Erlent · Hamfarir · Asía · Bangladess · Indland · Mjanmar · Nepal · Róhingjar · Veður
epa07705682 Rohingya children stand in front of their makeshift homes at Balukhali refugee camp in Ukhia, Cox's Bazaar, Bangladesh, 07 July 2019 (issued on 09 July 2019). According to the International Organization of Migration, two people have died and over 2,700 people have been displaced by heavy rains in the past five days.  EPA-EFE/SALMAN SAEED
 Mynd: epa
Um ein milljón flóttafólks sem búið hefur við bágan kost í stærstu flóttamannabúðum heims má nú þola enn meiri harðindi en fyrr, því monsúnrigningar sem geisa nú í Bangladess hafa eyðilagt kofa og hreysi sem þúsundir þeirra hafa þurft að kalla heimili sín síðustu mánuði.

Róhingjar frá Mjanmar flúðu ofsóknir Mjanmarska hersins í hundraða þúsunda tali og hafast nú við í flóttamannabúðum við bæinn Cox's Basar í Bangladesh. Áætlað er að þeir séu ríflega milljón talsins. Á síðustu tveimur vikum hefur úrkoman mælst 585 millimetrar í bænum, samkvæmt veðurstofu Bangladesh. Erindreki Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 5.000 kofar og skýli sem hróflað var saman úr bambus og segldúk hafi eyðilagst í úrhellinu. 

Yfir 200 grjót- og aurskriður hafa fallið á og við búðirnar síðan í apríl og kostað minnst tíu mannslíf. Um 50.000 manns hafa meiðst eða misst sínar litlu eigur að hluta eða öllu leyti í skriðunum og um 6.000 manns hafa nú ekkert þak yfir höfuðið vegna rigninganna. Samkvæmt upplýsingum yfirvalda í Chittagong-héraði, þar sem búðirnar eru, hafa um 200 bæir og þorp í héraðinu farið meira og minna á kaf í vatnsveðri síðustu vikna og um 500.000 manns þurft að flýja heimili sín vegna þess.

Tugir hafa líka látið lífið í Nepal og norðausturhluta Indlands vegna monsúnrigninganna og afleiðinga þeirra síðustu daga og vikur. Yfir 50 manns fórust í Nepal frá fimmtudegi til sunnudags þegar Brahamputra-fljót flæddi yfir bakka sína. Í milljónaborginni Mumbai, fjölmennustu borg Indlands, dóu minnst 27 manns fyrr í þessum mánuði og fjöldi mannvirkja hrundi í mestu rigningum sem þar hafa orðið í 14 ár.