
Róhingjar frá Mjanmar flúðu ofsóknir Mjanmarska hersins í hundraða þúsunda tali og hafast nú við í flóttamannabúðum við bæinn Cox's Basar í Bangladesh. Áætlað er að þeir séu ríflega milljón talsins. Á síðustu tveimur vikum hefur úrkoman mælst 585 millimetrar í bænum, samkvæmt veðurstofu Bangladesh. Erindreki Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 5.000 kofar og skýli sem hróflað var saman úr bambus og segldúk hafi eyðilagst í úrhellinu.
Yfir 200 grjót- og aurskriður hafa fallið á og við búðirnar síðan í apríl og kostað minnst tíu mannslíf. Um 50.000 manns hafa meiðst eða misst sínar litlu eigur að hluta eða öllu leyti í skriðunum og um 6.000 manns hafa nú ekkert þak yfir höfuðið vegna rigninganna. Samkvæmt upplýsingum yfirvalda í Chittagong-héraði, þar sem búðirnar eru, hafa um 200 bæir og þorp í héraðinu farið meira og minna á kaf í vatnsveðri síðustu vikna og um 500.000 manns þurft að flýja heimili sín vegna þess.
Tugir hafa líka látið lífið í Nepal og norðausturhluta Indlands vegna monsúnrigninganna og afleiðinga þeirra síðustu daga og vikur. Yfir 50 manns fórust í Nepal frá fimmtudegi til sunnudags þegar Brahamputra-fljót flæddi yfir bakka sína. Í milljónaborginni Mumbai, fjölmennustu borg Indlands, dóu minnst 27 manns fyrr í þessum mánuði og fjöldi mannvirkja hrundi í mestu rigningum sem þar hafa orðið í 14 ár.