Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flóð á Abaco-eyjum og Grand Bahama

02.09.2019 - 09:06
Strong winds move the palms of the palm trees at the first moment of the arrival of Hurricane Dorian in Freeport, Grand Bahama, Bahamas, Sunday Sept. 1, 2019. (AP Photo/Ramon Espinosa)
Það var orðið hvasst á Grand Bahama í gærkvöld. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Fellibylurinn Dorian skilur eftir sig slóð eyðileggingar á leið sinni yfir Bahama-eyjar, en ekki hafa borist staðfestar fregnir af manntjóni.

Fellibylurinn var í nótt við austurodda Grand Bahama, nyrstu eyjarinnar í Bahama-eyjaklasanum og er þar mikil úrkoma. Alþjóðaflugvöllurinn á Grand Bahama er sagður undir vatni.  

Fellibylurinn er talinn hafa valdið miklu tjóni á Abaco-eyjum, sem liggja austan við Grand Bahama. Þaðan hafa borist myndir af miklum flóðum, en fregnir eru takmarkaðar því erfitt er að ná sambandi við eyjaskeggja.

Dorian færist hægt í vesturátt að strönd Bandaríkjanna. Yfirvöld í Flórída, Georgíu, Suður- og Norður-Karólínu hafa lýst yfir neyðarástandi vegna fellibylsins.