Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flett ofan af milljarða peningaþvætti í sænskum banka

27.11.2019 - 06:13
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Grunur leikur á að umfangsmikið peningaþvætti hafi verið stundað í gegnum sænska bankann SEB. Talið er að um hálfur milljarður sænskra króna, tæplega sex og hálfur milljarður íslenskra króna, að mestu afrakstur alvarlegra efnahagsbrota, hafi verið þvættur í gegnum reikninga viðskiptavina bankans í Eystrasaltsríkjunum,

Þetta kom fram í sænska fréttaskýringaþættinum Uppdrag granskning. Í kjölfar þess að flett var ofan af milljarða peningaþvætti í gegnum Eystrasaltsútibú Danske bank í fyrra fullyrtu forsvarsmenn sænsku bankanna Swedbank og SEB í fjölmiðlum, að ekkert slíkt væri í gangi þar á bæ og að útlendingarnir sem þvættu peninga sína hjá Danske bank væru ekki í viðskiptum hjá þeim.

Johan Torgeby, yfirmaður SEB, tók sérstaklega fram að engin ástæða væri til að hafa áhyggjur af viðskiptavinum bankans í Eystrasaltsríkjunum. Vel væri fylgst með öllu, áhættustjórnun væri með ágætum og engar viðvörunarbjöllur hefðu glumið. 

Rannsókn Uppdrag granskning, sem unnin var í samvinnu við TT-fréttastofuna finnska ríkisútvarpið YLE, og fréttanetið OCCRP, leiddi annað í ljós: 130 viðskiptavinir bankans á árunum 2005 til 2017 hringdu einmitt viðvörunarbjöllum innan bankans - eða hefðu átt að gera það -  vegna mikillar og augljósrar hættu á peningaþvætti. Allir voru þeir í viðskiptum við útibú bankans í hvorutveggja Svíþjóð og einhverju Eystrasaltsríkjanna. 

Þetta má lesa úr gögnum sem lekið var til Uppdrag granskning og varða starfsemi SEB, og miklu magni gagna sem lekið var til OCCRP um starfsemi litáíska bankans Uiko. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV