Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flestir vilja Dag áfram í embætti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flestir borgarbúar vilja að Dagur B. Eggertsson sitji áfram í embætti borgarstjóra, ef marka má könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem gerð var fyrir Morgunblaðið. Rúmlega 46 prósent þeirra sem tóku afstöðu vilja hann áfram sem borgarstjóra. Eyþór Arnalds er næst vinsælastur, en tæp 30 prósent vilja að hann taki embættið að sér eftir kosningar.

Rúmlega sjö prósent vilja að Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, verði borgarstjóri í vor, rúmum sex prósentum líst best á Líf Magneudóttur, oddvita Vinstri grænna, um þrjú prósent vilja sjá Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar, sem borgarstjóra og rúmt prósent vill að oddviti Framsóknarflokksins, Ingvar Mar Jónsson, taki embættið að sér.

Einnig var spurt hvaða kosningamál þátttakendur telji að verði þau stærstu í vor. Þar voru samgöngumál efst á baugi, en rúmlega fjörðungur taldi þau eiga eftir að vera stærst. Velferðar- og jafnréttismál komu næst, þá húsnæðismál, skólamál og fjármál borgarinnar, í þessari röð.
Könnunin var gerð dagana 21. til 27. mars.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV