Flestir til fyrirmyndar en sumir til vandræða

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV

Flestir til fyrirmyndar en sumir til vandræða

11.08.2019 - 06:38

Höfundar

Þúsundir gesta alstaðar að af landinu og víðar þáðu höfðinglegt heimboð Dalvíkinga, gæddu sér á gómsætu fiskmeti og skemmtu sér fram á nótt á Fiskideginum mikla í gær. Yfirgnæfandi meirihluti gesta skemmti sér bæði vel og fallega og almennt fóru hátíðahöldin vel fram, að sögn lögreglu nyrðra. Nokkrir létu þó ófriðlega og var nokkuð erilsamt hjá lögreglu þegar líða tók á kvöldið og nóttina segir varðstjóri sem þar var að störfum.

Töluverður drykkjuskapur var á hluta hátíðargesta og nokkuð um uppákomur sem tengdust honum. Slagsmál brutust nokkrum sinnum út milli manna sem drukkið höfðu meira en góðu hófi gegnir og þurfti lögregla ítrekað að skakka leikinn. Fimm gista fangageymslur eftir nóttina, tveir þeirra á Dalvík en þrír á Akureyri, þar af einn sem réðist á lögreglumann við skyldustörf.

Nokkur minniháttar fíkniefnamál komu upp en enginn var stöðvaður fyrir að aka undir áhrifum áfengis eða vímuefna.

Laust fyrir sex í morgun voru flestir komnir í koju og kyrrð að færast yfir bæinn að sögn lögreglu. Fáeinir voru þó enn að skemmta sér og gerðu það með sóma. 

Tengdar fréttir

Norðurland

Fjör á Fiskidegi og stemning á Sheeran

Dalvíkurbyggð

Regnbogagata Hinsegin daga opnuð á Dalvík