Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Flestir Íslendingar telja sig millistéttarfólk

15.11.2017 - 20:55
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Áttatíu prósent Íslendinga líta á sig sem millistéttarfólk og telja almennt lítil stéttaátök á Íslandi. Félagsfræðiprófessor segir Íslendinga vel meðvitaða um eigin stéttarstöðu og þetta viðhorf gæti átt eftir að breytast samfara auknum ójöfnuði í tekjuskiptingu.

Guðmundur Oddsson, doktor í félagsfræði og lektor við Háskólann á Akureyri, flutti í dag erindi um stéttaskiptingu og vitnaði í alþjóðlega viðhorfskönnun frá 2010 og eigin rannsóknir á þessu sviði. Hann segir Íslendinga mun meðvitaðri um eigin stéttarstöðu en eldri rannsóknir hafi sýnt. 

Áttatíu prósent líta á sig sem millistétt

„Niðurstaðan er sú að Íslendingar sjá sig að stærstum hluta í millistétt, í einhverskonar millistétt,“ segir Guðmundur. Um 80 prósent þjóðarinnar sjái sig í millistétt sem sé mjög hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði. Þarna ráði bæði eiginleg stéttarstaða, en einnig hugmyndafræðileg. Hingað til hafi verið sterk hugmyndafræði á Íslandi, að við séum fremur stéttlaust þjóðfélag. „Og við sjáum að það er svona millistéttartilhneiging, alveg upp og niður stéttakerfið. Þú getur verið með mjög efnað fólk sem segir, ég er í millistétt. Og svo einhverjir sem eru tiltölulega fátækir sem segja líka millistétt,“ segir hann.

Um helmingurinn sér Ísland sem millistéttarsamfélag

Og Guðmundur segir fólk einnig líta á samfélagið sem millistéttarsamfélag. „Já, það var að minnsta kosti ein spurning sem spyr fólk um hvernig það sér fyrir sér stéttakerfið á Íslandi. Og um það bil helmingur svarenda sér fyrir sér Ísland sem millistéttarsamfélag. Í þeim skilningi að flestir séu í millistétt. Og í alþjóðlegum samanburði þá erum við aftur með frændum okkar, Dönum, Norðmönnum og Svíum, að svona hátt hlutfall sjái fyrir sér samfélagið sem millistéttarþjóðfélag.“

Almennt ekki mikil stéttaátök

Og miðað við önnur lönd segir Guðmundur að kannanir hafi sýnt að fólki hér finnist frekar lítil átök milli stétta hér á landi. „Í alþjóðlegum samanburði, þegar við skellum öllum svörum saman í eitt, þá sjá Íslendingar ekki mikil stéttaátök. En þau átök sem þeir sjá eru þá helst á milli þeirra sem sitja á toppnum, fjármagnseigendur, og hinna.“

Hugmyndin um séttlaust þjóðfélag sé að breytast

En hann spáir því að þetta viðhorf Íslendinga og hugmyndin um stéttlaust þjóðfélag sé að breytast. Og nýjar kannanir gætu gefið aðra niðurstöðu. Því valdi að ójöfnuður í tekjuskiptingu á Íslandi fari vaxandi. „Þessi sama könnun verður lögð aftur fyrir að ég held 2019. Þannig að það verður mjög fróðlegt einmitt að bera saman svörin, hvað það er sem gerist á þessu tímabili,“ segir Guðmundur.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV