Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Flestir forystumenn kusu fyrir hádegi

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Kjörstaðir vegna Alþingiskosninga voru opnaðir klukkan níu og verða víðast hvar opnir til tíu í kvöld. Forystumenn stjórnmálaflokkanna kusu flestir með fyrra fallinu. Að venju stilltu þeir sér upp við kjörkassann á meðan ljósmyndarar og myndatökumenn festu augnablikið á filmu.

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins kaus á Flúðum klukkan tíu, um sama leyti voru þeir Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar að kjósa í Ráðhúsi Reykjavíkur og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Á ellefta tímanum setti Þorvaldur Þorvaldsson formaður Alþýðufylkingarinnar atkvæði sitt í kjörkassann í Ráðhúsinu, Katrín Jakobsdóttir formaður VG skilaði sínu í Hagaskóla, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar, kaus í Lækjarskóla í Hafnarfirði, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kaus í Ingunnarsskóla og það gerði líka Pálmey Gísladóttir, formaður Dögunar. Pálmey á þess reyndar ekki kost að kjósa sinn flokk sem bara býður fram í Suðurkjördæmi.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, kaus í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir foringi Pírata í Ráðhúsinu og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kýs utankjörfundar á Akureyri klukkan 16 í dag.

Fréttinni hefur verið breytt. Sigmundur Davíð hefur ákveðið að kjósa utankjörfundar á Akureyri í stað Smáralindar.

Þá er búið að bæta við myndskeiðið myndum af Katrínu Jakobsdóttir, formanni Vinstri grænna, og Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, að kjósa. 
 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV