Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flensufaraldur í Búlgaríu

06.03.2020 - 15:11
epa07957715 A woman gets a flue shot at a Deutsche Post DHL Package distribution center in Berlin, Germany, 29 October, 2019. Minister Spahn arrived to the DHL packing distribution center in order to get vaccinated along with other Deutsche Post employees, thus to encourage citizens and private companies to get their workers vaccinated against the flu.  EPA-EFE/OMER MESSINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Flensufaraldur geisar nú í Búlgaríu, en svonefnd B-inflúensa hefur breiðst þar hratt út að undanförnu og segjast sérfræðingar í smitsjúkdómum ekki hafa séð annað eins í meira en áratug. 

Að sögn heilbrigðisyfirvalda smituðust nærri 5.000 manns af B-inflúensu í Búlgaríu síðustu vikuna í febrúar. Hins vegar hefur landið enn sloppið við COVID-19 kórónaveiruna svo vitað sé.

Flensan bitnar mest á börnum upp að fjórtán ára aldri. Skólum hefur verið lokað og verða þeir lokaðir til 11. þessa mánaðar hið minnsta. Kappleikjum og menningarviðburðum hefur víða verið frestað eða aflýst.

Sérfræðingateymi, sem skipað var til að annast viðbrögð við COVID-19 kórónaveirunni og hindra útbreiðslu hennar, segir þann undirbúning í uppnámi því mörg sjúkrahús séu yfirfull af fólki með flensu.

Fresta hafi orðið skurðaðgerðum og heimsóknir til sjúklinga verið bannaðar. Þá séu andlitsgrímur og sótthreinsivökvi uppseldur í landinu. Heilbrigðiskerfið sé komið að þolmörkum áður en fyrsta tilfelli kórónuveiru hafi greinst í landinu.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV