Fleiri vantreysta Trump en Pútín og Xi Jinping

09.01.2020 - 04:05
Mynd með færslu
Eilítið fleiri segjast treysta Trump til góðra verka á alþjóðavettvangi en Xi Jinping. Mun fleiri segjast þó vantreysta Trump en kollega hans í Peking. Mynd:
Mun fleiri bera traust til Þýskalandskanslara og Frakklandsforseta en til Bandaríkjaforseta, samkvæmt könnun sem gerð var meðal nær 37.000 borgara í 32 ríkjum heims. Og fleiri vantreysta Bandaríkjaforseta en forsetum Rússlands og Kína.

Bandaríska rannsóknafyrirtækið Pew Research Center gerir árlega könnun á trausti og vantrausti fólks í hinum ýmsu löndum til fimm af helstu valdhöfum heimsins á sviði alþjóðamála.

Í ár sögðust 46 prósent aðspurðra bera traust til Angelu Merkel og 41 prósent sagðist hafa trú á Emmanuel Macron, Frakklandsforseta. Þriðjungur aðspurðra, 33 prósent, segjast treysta Vladimír Pútín, Rússlandsforseta, en 29 prósent, treysta Donald Trump, Bandaríkjaforseta til að láta gott af sér leiða á alþjóðavettvangi. Litlu færri, eða 28 prósent aðspurðra, sögðust treysta Xi Jinping, Kínaforseta, til góðra verka á sviði alþjóðamála.

Fleiri vantreysta Trump en Pútín Xi Jinping

Þetta snýst við þegar horft er til þeirra sem segjast vantreysta leiðtogunum. 64 prósent segjast enga trú hafa á Trump á þessu sviði, 57 prósent vantreysta Pútín og 43 prósent telja Xi ekki traustsins verðan. Rúmur þriðjungur, eða 36 prósent, ber ekki traust til Macrons en tæpur þriðjungur, 29 prósent, vantreystir Merkel.

Spurt var út í afstöðu fólks til nokkurra helstu stefnumála leiðtoganna á alþjóðavettvangi og framgöngu þeirra á því sviði. Mikill meirihluti var mótfallinn stefnu og aðgerðum Trumps í milliríkjaviðskiptum,  loftslags- og innflytjendamálum, en heldur fleiri voru ánægð en óánægð með framgöngu hans gagnvart Norður Kóreu.

Mexíkóar treysta Trump þjóða minnst

Mexíkóar eru sú þjóð sem minnst traust ber til Trumps; þar sögðust 89 prósent aðspurðra vantreysta Bandaríkjaforseta. Í Vestur-Evrópu er ástandið víða litlu skárra: Um það bil þrír af hverjum fjórum Svíum, Þjóðverjum, Frökkum, Spánverjum og Hollendingum vantreysta Trump.

Filippseyingar og Ísraelar treysta Trump mest

Í sex af þeim 32 löndum sem könnunin nær til nýtur Trump trausts helmings aðspurðra eða fleiri. Það á við um Filippseyjar (77 prósent), Ísrael (71 prósent), Kenía (65 prósent), Nígeríu (58 prósent), Indland (56 prósent) og Pólland (51 prósent).

Könnunin í ár var gerð frá 18. maí til 2. október og alls tóku 32.923 manneskjur í 32 löndum þátt. Könnunin er afar ítarleg og tekur til mun fleiri þátta en hér er hefur verið rakið. Nálgast má allar niðurstöður á heimasíðu Pew Research Center.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV