Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fleiri útstöðvar kunna að finnast á Íslandi

25.06.2018 - 09:58
Fornleifarannsóknir á Stöð í Stöðvarfirði gætu leitt í ljós hvernig auðlindir Íslands voru nýttar fyrir eiginlegt landnám og hvaðan fólkið kom. Rannsóknir á gjósku og kolefnagreining gætu bent til þess að fleiri útstöðvar kunni að finnast á Íslandi.

Þetta er þriðja sumarið sem rannsóknir fara fram á Stöð. Þar er verið að grafa upp landnámsskála og eldra hús, mögulega útstöð erlends höfðingja. „Hérna er yngra húsið. Svart gólfið í miðskipi yngra hússins sem teygir sig hérna yfir 70% af fletinum. Það er byggt ofan í eldra hús. Þetta er veggurinn á eldra húsinu, ytri veggur eldra hússins með inngangi eða dyrum inn. Bæði húsin halda hér áfram þar sem ég stend. Hversu langt vitum við ekki en það geta verið yfir 30 metrar í heildina. Það kemur í ljós næsta sumar eða þarnæsta eftir því hvað okkur verður ágengt,“ segir dr. Bjarni F. Einarsson frá Fornleifafræðistofunni en hann stýrir uppgreftrinum.

Styrkur fékkst úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að einangra DNA úr jarðvegi í samstarfi við Earlham-háskóla í Bandaríkjunum. „Við erum búin að taka sýni úr jarðvegi úr mannvistarlögum og ætlum að reyna að greina DNA dýra, manna og plantna úr þeim lögum. Þetta hefur verið notað og fundist í Grænlandi og í Evrópu, í Rússlandi, í hellum þar, þannig að við ákváðum að það væri allavega tilraunarinnar virði að skoða hvort það væri hægt hérna á Íslandi,“ segir Rannveig Þórhallsdóttir, fornleifafræðinemi við Háskóla Íslands. Markmiðið er að komast að því hvaðan þeir komu sem bjuggu á Stöð, hvað þeir borðuðu og hvaða dýr þeir héldu.

Á Stöð hafa nú fundist margar perlur, með því mesta sem fundist hefur í víkingaaldarhúsum á Íslandi og nú í sumar augnperla, líklega frá Litlu-Asíu. Fimm gjóskulög hafa verið greind, landnámslagið frá því um 871 en hin eru öll eldri. Það styður C14-greiningu á viðarkolum, sem bendir til þess að útstöðin sé eldri eða frá því rétt eftir 800. „Sé þetta rétt, að tímasetningin fyrir hið eiginlega landnám, þá getur þetta varpað ljósi á aðra staði á Íslandi, sem hafa verið að sýna svipaðar niðurstöður en við mistúlkað eða afskrifað sem gallaðar C14-greiningar. Ég nefni nú bara Reykjavík sem dæmi,“ segir Bjarni.

Hafi fleiri staðir einnig verið nýttir sem útstöðvar, gæti það útskýrt hvernig landnám kom til. „Þá fór ekki bara auðlindin úr landi heldur líka upplýsingin um landskostina og sú upplýsing dreifðist um héruð í Evrópu. Það var á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fólk tók meðvitaða ákvörðun um að flytjast til þessa lands. Það vissi í stórum dráttum að hverju það gekk,“ segir Bjarni.