Fleiri smit greind í Vestmannaeyjum

19.03.2020 - 23:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrír greindust með COVID-19 smit í Vestmannaeyjum í dag. Þar með er fjöldi smitaðra í Eyjum kominn í tíu. Um hundrað manns eru í sóttkví. Ekkert hefur verið staðfest um hvernig smitið barst á milli fólk. Lögregla segir að það eina sem virðist tengjast öllum málunum að svo stöddu séu íþróttakappleikir sem fólkið eða einstaklingar sem því tengjast sóttu á höfuðborgarsvæðinu. Of snemmt er þó að fullyrða nokkuð um að það skýri smitið.

Einn þeirra sem hafa verið greindir með COVID-19 smit tengist íþróttamiðstöðinni og hefur henni því verið lokað. Þegar var búið að loka leikskólanum Sóla tímabundið og ákveða að sjöundu bekkingar í Grunnskóla Vestmannaeyja yrðu heima í dag. Það var gert vegna þess að nemendur í sjöunda bekk tengjast smituðu fólki. Í gær voru tekin sýni af öllum nemendum sem voru með einkenni en niðurstöðurnar voru neikvæðar. Sýni voru tekin af öðrum nemendum í dag en niðurstöður eru ekki komnar úr þeim rannsóknum.

„Vestmannaeyjar sem samfélag hefur brugðist vel við yfirvofandi faraldri og ráðstafanir í Eyjum hafa verið síst umfangsminni en annars staðar,“ segir í færslu á Facebook-síðu Lögreglunnar í Vestmannaeyjum. „Tilviljun getur hins vegar ráðið því hvar veiran stingur sér niður eins og dæmin sanna.“

Opinn fundur verður á netinu á laugardag þar sem Vestmannaeyingum gefst færi á að spyrja fulltrúa aðgerðastjórnar spjörunum úr.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi