Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fleiri konur stýra sveitarfélögum en áður

18.09.2018 - 16:52
Vesturbyggð Patreksfjörður
 Mynd: Jóhannes Jónsson
Skipt hefur verið um sveitarstjóra eða oddvita í nær helmingi sveitarfélaga landsins eftir kosningarnar í vor. Pólitískir sveitarstjórar eru í miklum minnihluta. Konum sem stjórna sveitarfélögum fjölgar um tíu frá síðasta kjörtímabil og eru þær nú ríflega þriðjungur sveitarstjóra.

Í síðustu viku var tilkynnt um ráðningar nýrra sveitarstjóra í Reykhólahreppi og sveitarfélaginu Skagaströnd. Þar með er búið að ráða í allar stöður sveitarstjóra sem losnuðu eftir kosningarnar í vor. Sums staðar eru framkvæmdastjórar sveitarfélaga titlaðir bæjarstjórar en annars staðar eru þeir titlaðir sveitarstjórar. Geta þeir ýmist verið pólitískir úr röðum frambjóðenda, eða ráðnir úr hópi umsækjenda. Oddvitar veita minnstu sveitarfélögunum forystu. 

Nýir stjórnendur í nær helmingi sveitarfélaga

Sveitarfélögin voru 74 talsins á síðasta kjörtímabili en var fækkað í 72 í vor. Breiðdalshreppur og Fjarðabyggð voru sameinuð undir nafni þess síðarnefnda og þá urðu Sandgerði og Garður að einu sveitarfélagi sem ekki hefur tekist að finna nafn á. Talsverðar breytingar urðu á stjórnendahópi sveitarfélaga eftir kosningarnar í vor. Alls hafa nýir framkvæmdastjórar eða oddvitar tekið við í 32 sveitarfélögum, sem nemur 44% af sveitarfélögum landsins.

Nýtt fólk fylgir nýjum meirihlutum

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, bendir á að meirihlutar hafi fallið í allmörgum sveitarfélögum í vor. „Þá náttúrulega fylgir því oftar en ekki skipti á sveitar- eða bæjarstjórum. Það eru að minnsta kosti tíu skipti sem eiga rætur að rekja til meirihlutaskipta,“ segir Grétar. Þá hafi verið skipt um sveitarstjóra í að minnsta kosti sex sveitarfélögum, þrátt fyrir að meirihlutar hafi haldið velli. 

Grétar segir að gott atvinnuástand í þjóðfélaginu geti einnig haft áhrif á þessar breytingar. „Svona miðað við fyrir fjórum árum, svo ég tali nú ekki um 2010, þá er atvinnuástand á þessum atvinnumörkuðum þar sem þetta fólk er gjaldgengt betra og það kannski ýtir eitthvað undir hreyfingu,“ segir Grétar.  

Hreyfingar á Suðurlandi

Eins og venja er á fjögurra ára fresti er nokkuð um að sveitarstjórar færi sig á milli sveitarfélaga. Nú er þetta sérlega áberandi á Suðurlandi. Elliði Vignisson, sem hafði verið bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í 12 ár, tók við stöðu bæjarstjóra í Ölfusi. Gísli Halldór Halldórsson, sem hafði verið í fjögur ár á Ísafirði, tók við sem bæjarstjóri í Árborg. Ásta Stefánsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Árborgar, færði sig til Bláskógabyggðar. Valtýr Valtýsson sem hafði verið sveitarstjóri í Bláskógabyggð frá 2010 er nýr sveitarstjóri Ásahrepps. Þá var Ásthildur Sturludóttir ráðin bæjarstjóri á Akureyri, en hún hafði verið bæjarstjóri í Vesturbyggð frá 2010. 

Fleiri reynsluboltar eru í hópi nýrra sveitarstjóra. Björg Ágústsdóttir, sem er nýráðinn bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, stýrði sama sveitarfélagi á árunum 1995 til 2006. Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri í Hvalfjarðarsveit, var sveitarstjóri í Borgarfjarðarsveit 2003-2006. Tryggvi Harðarson, nýr sveitarstjóri í Reykhólahreppi var áður sveitarstjóri í Þingeyjarsveit og á Seyðisfirði. 

Mynd með færslu
Selfoss og Ölfusá. Á myndinni má sjá hús við Jórutún. Myndin er úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson

Skipt hefur verið um æðstu stjórnendur sveitarfélaga í öllum landshlutum. Á Suðurlandi eru flestar breytingar, eða sjö talsins. Á Vestfjörðum hefur nýtt fólk tekið við stjórn í fimm sveitarfélögum, líkt og á Vesturlandi, Norðurlandi eystra og Norðurlandi vestra. Á Austurlandi eru þrír nýir sveitarstjórar og tveir á höfuðborgarsvæðinu, í Hafnarfirði og Kjósarhreppi. Á Suðurnesjum eru engar breytingar, ef frá er talin sameining Sandgerðis og Garðs. Magnús Stefánsson, sem var áður í Garði, er sveitarstjóri sameinaðs sveitarfélagsins.  

Ríflega þriðjungur stjórnenda konur

En hvaða áhrif hafa þessar breytingar á kynjahlutfallið? Á síðasta kjörtímabili gegndu aðeins 16 konur stöðum sveitarstjóra eða oddvita, á móti 58 körlum. Í byrjun maí, nokkrum vikum fyrir kosningar, voru því 22% framkvæmdastjóra sveitarfélaga konur, eða ríflega ein af hverjum fimm. 

Hlutur kvenna hefur vænkast þónokkuð eftir ráðningar nýrra sveitarstjóra. Nú er ríflega þriðjungur framkvæmdastjóra sveitarfélaga konur, eða 36%. Þær eru 26 talsins en karlarnir 46. Er þetta í takti við þróun í sveitarstjórnum eftir kosningarnar. 47% af kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum eru konur og hefur hlutur kvenna í sveitarstjórnum aldrei verið meiri. Til samanburðar var hlutfall kvenna eftir kosningar 1998 einungis 28%, samkvæmt úttekt Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Grétar Þór fagnar þessari þróun. „Maður gæti alveg sagt að það sé ekkert óeðlilegt að þegar konum sem ráða þessu, eða hafa hönd í bagga með hver er ráðinn, fer fjölgandi, þá auki það líkurnar á að konur séu ráðnar í þessi störf. Og um leið eru greinilega fleiri konur sem gefa kost á sér í þetta. Ég held að allir hljóti að fagna því,“ segir Grétar. 

Flest sveitarfélög sem voru án sveitarstjóra eftir kosningar auglýstu opinberlega eftir nýjum. Alls voru ráðnir sveitarstjórar, sem ekki komu úr röðum frambjóðenda, í 23 sveitarfélögum. Nýir pólitískir sveitarstjórar, sem voru í framboði, eru fjórir. Þó ber að nefna að Jakob Björgvin Jakobsson var kynntur sem bæjarstjóraefni H-lista í Stykkishólmi fyrir kosningar, þrátt fyrir að hafa ekki átt sæti á framboðslistanum. Þá tóku við nýir oddvitar í fimm sveitarfélögum, sem öll hafa færri en 250 íbúa hvert. 

„Við getum rifjað það upp að 2010 varð bylgja í þá átt að það yrði allt að vera fagmannlegra og víða reyndu menn að feta þá braut,“ segir Grétar. Hann segir ljóst að sú bylgja sé ekki á undanhaldi. Almennt sé vinsælla að auglýsa eftir og ráða bæjarstjóra en að ráða úr hópi frambjóðenda. 

Grétar segir að þótt mörg sveitarfélög séu enn ansi fámenn þá hafi verkefnum þeirra fjölgað og kröfur til þeirra aukist. „Sem kalla á meiri stjórnsýslu og gera þetta að meira og mikilvægara starfi en oft hefur verið. Kannski er það að kalla á fleiri fagmenn inn í þetta.“

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV