Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fleiri konur segja Jón Baldvin hafa áreitt sig

14.01.2019 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Í dag höfðu tólf konur sagt frá kynferðislegir áreitni Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, á lokaðri Facebook síðu. Jón Baldvin tjáir sig ekki um málið. Enn eru að bætast við frásagnir, eftir að Stundin birti umfjöllun um málið á föstudag. 

Þrjár kvennanna úr fjölskyldu Jóns og Bryndísar

Fjórar konur sögðu í viðtali við Stundina fyrir helgi að Jón Baldvin hefði áreitt þær kynferðislega. Tvær þeirra voru nemendur hans í Hagaskóla en hinar tvær tengjast honum fjölskyldu- eða vinaböndum. Síðan hafa tvær aðrar konur úr fjölskyldunni stigið fram. Elstu frásagnirnar eru frá sjöunda áratugnum og sú nýjasta frá því í fyrra. Rætt var við tvær kvennanna í Morgunútvarpinu í morgun

Fleiri konur hafa greint frá sinni upplifun í lokuðum hópi á Facebook. Ein segir að Jón Baldvin hafi átt við hana kynferðislegt samneyti, þegar hún var átján-nítján ára nemandi í Menntaskólanum á Ísafirði þegar hann var skólameistari þar. Þetta hafi meðal annars gerst á skrifstofu skólameistara. 

Áður fjallað um kynferðislega áreitni Jóns árið 2012

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem greint er frá meintri kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins. Árið 2012 steig Guðrún Harðardóttir, systurdóttir Bryndísar Schram, konu Jóns Baldvins, fram og sagði frá því að Jón Baldvin hefði áreitt hana kynferðislega þegar hún var unglingur. Hún hafði bréf máli sínu til stuðnings, en brotin töldust ýmist fyrnd eða ekki varða við lög í Venesúela, þar sem Guðrún var stödd þegar Jón sendi henni bréfin.

Fréttastofa hafði samband við Jón Baldvin í dag. Hann vildi ekki tjá sig að svo stöddu, en segist ætla að svara síðar.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV