Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fleiri hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju

23.10.2015 - 20:20
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Samkvæmt nýrri könnun Gallup eru 55,5% landsmanna hlynntir því að ríki og kirkja verði aðskilin, 23,9% eru andvígir aðskilnaði, en 21,5% tóku ekki afstöðu. Stuðningur við aðskilnaðinn hefur aukist umtalsvert frá því í september á síðasta ári þegar 50,6% vildu skilja ríki og kirkju að.

Niðurstaða könnunarinnar kom fyrst fram í sjónvarpsþættinum Vikunni með Gísla Marteini Baldurssyni á Rúv í kvöld.

Mikill munur var á afstöðu fólks til sambands ríkis og kirkju eftir því hvaða stjórnmálaflokk það styður. Þannig telja 79% þeirra sem styðja Pírata réttast að skilja ríki og kirkju í sundur, en aðeins 26% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig afstaða fólks helst í hendur við stjórnmálaskoðanir.

Könnunin var gerð í september á þessu ári, en spurt var: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðskilnaði ríkis og kirkju? Úrtakið taldi 1429 eintaklinga, en 58,4% tóku þátt.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV