Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fleiri fluttust til landsins en frá því

Mynd með færslu
 Mynd: Fantastic Removals
Í fyrra fluttu 6.556 fleiri til landsins en frá því, eða alls 14.275 einstaklingar. Árið áður fluttu 8.240 til landsins umfram brottflutta, eða 14.929. Flestir þeirra sem fluttu af landi brott fóru til Póllands eða Danmerkur. Erlendir ríkisborgarar voru fleiri en íslenskir í hópi brottfluttra, eða 4.916 á móti 2.803.

Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofunnar um mannfjöldaþróun ársins 2018. Þar kemur fram að landsmönnum hafi fjölgað um 2,5 prósent á milli ára, eða um 8.541. Í upphafi árs voru íbúar landsins 356.991. Sveiflur í búsetuþróun hér á landi skýrist helst af búferlaflutningum til og frá landinu. 

Flestir aðfluttra frá Póllandi

Þá fluttu 7.719 úr landi í fyrra, samanborið við 6.689 árið áður og 6.889 árið 2016. Alls 1.717 þeirra sem fluttu af landi brott fóru til Póllands og 1.083 til Danmerkur.

Frá Póllandi fluttust 3.801 til landsins. Fleiri fluttu frá öðrum norrænum löndum til Íslands en frá Íslandi til þeirra, eða 2.770 frá Danmörku, Noregi og Svíðþjóð á móti þeim 2.175. Þá komu 1.195 frá Litáen. Búferlaflutningar til og frá öðrum löndum var mun minni.

Erlendir ríkisborgarar voru fleiri en íslenskir í hópi brottfluttra, eða 4.916 á móti 2.803 og aðfluttra, þá 11.537 á móti 2.738. Aðeins 65 íslenskir ríkisborgarar fluttu úr landi umfram aðflutta. Aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 6.621 umfram brottflutta.

Flestir aðfluttra og brottfluttra í fyrra voru á aldrinum 25-29 ára. Flestir þeirra sem fluttust til Íslands settust að á höfuðborgarsvæðinu, eða 4.292 af 6.556.

Innflytjendum fjölgaði á milli ára

Í upphafi árs voru skráðir 50.272 innflytjendur hér á landi og hlutfall þeirra af heildarmannfjölda var 14,1 prósent. Í fyrra voru innflytjendur 12,6 prósent landsmanna, eða 43.737. 

Annarri kynslóð innflytjenda fjölgaði nokkuð á milli ára, voru 4.861 í fyrra og 5.263 nú. Samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 15,6 prósent af mannfjöldanum, samanborið við 13,9 prósent í fyrra. 

Pólverjar eru langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Í upphafi árs áttu 19.172 rætur að rekja til Póllands, eða 38,1 prósent allra innflytjenda. Þar á eftir er fólk frá Litáen, sem er 5,7 prósent innflytjenda og frá Filippseyjum, 3,9 prósent.

Flestir innflytjenda búa á höfuðborgarsvæðinu eða 35.341 í upphafi árs. Hlutfall innflytjenda af mannfjölda var hæst á Suðurnesjum, og búa þar 26,6 prósent innflytjenda af fyrstu eða annarri kynslóð. Lægst er hlutfallið á Norðurlandi vestra. Þar eru um 7,5 prósent mannfjöldans innflytjendur og börn þeirra.

Færri fengu ríkisborgararétt í fyrra miðað við árið á undan

Í fyrra fengu 569 manns íslenskan ríkisborgararétt samanborið við 637 árið á undan. Af þeim 569 sem fengu íslenskt ríkisfang í fyrra höfðu flestir verið áður með pólskt ríkisfang, eða 149, og næstflestir með sýrlenskt ríkisfang, eða 57. Í fyrra fengu 310 konur íslenskt ríkisfang á móti 259 körlum. Frá árinu 1991 hafa konur verið í meirihluta nýrra íslenskra ríkisborgara.