Fleiri falla fyrir hendi maka í Bretlandi

13.09.2019 - 15:20
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Hundrað sjötíu og þrjár manneskjur voru myrtar af fjölskyldumeðlim í Bretlandi á síðasta ári. Stefnt er að því á breska þinginu að taka fyrir frumvarp sem kveður á um bætt úrræði fyrir fólk sem verður fyrir heimilisofbeldi.

Konur voru 75 prósent þeirra sem myrt voru af maka, fyrrverandi maka eða öðrum úr fjölskyldunni í Bretlandi í fyrra. Karlar voru yfirgnæfandi meirihluti gerenda. 

Samkvæmt samantekt BBC, breska ríkisútvarpsins, hefur morðmálum, sem tengjast heimilisofbeldi, fjölgað um þrjátíu og tvö síðan árið 2017. Guardian hefur eftir Elizabeth Yardley, prófessor í afbrotafræði við Birmingham háskóla, að morð sem þessi komi ekki eins og þruma úr heiðskýru lofti. Það sé ekki þannig að ofbeldismenn missi skyndilega stjórn á sér né að þeim hafi verið ögrað. Að baki sé líkamlegt og andlegt ofbeldi sem oft leiði til einangrunar þess sem fyrir því verður, sem verði til þess að fólk leiti sér síður hjálpar. Brotaþolar missi tengsl við fjölskyldu, vini og vinnufélaga. Þegar svo sé komið hafi ofbeldismenn enn meiri stjórn, sem sé iðulega markmið þeirra. 

Forsætisráðherra Breta greindi frá því í færslu á Twitter í vikunni að á næsta þingi verði lagt fram frumvarp sem kveður á um meiri vernd þeirra sem flýja ofbeldi á heimili. Stofna á fleiri athvörf og skilgreina betur í lögum hvað sé heimilisofbeldi. Stefnt er að því að fjárhagslegt og andlegt ofbeldi verði hluti af þeirri skilgreiningu.

Mannréttindasamtök hafa fagnað því að lagabreytingar séu í vændum. Þau gagnrýna þó að ekki sé tekið nægilega mikið tillit til kvenna sem séu innflytjendur á Bretlandi. Guardian hefur eftir Karla McLaren hjá Amnesty International að eins og staðan sé í dag geti það verið mjög erfitt fyrir konur í þeirri stöðu að leita sér aðstoðar, jafnvel þó að þær séu í lífshættu vegna ofbeldis sem þær eru beittar af maka. Hafi þær ekki dvalarleyfi, óttist þær að vera tilkynntar til yfirvalda og vísað úr landi. 

Krikketleikarinn Geoffrey Boycott var aðlaður af Bretadrottningu í síðasta mánuði og var það gagnrýnt af mörgum. Hann hlaut dóm fyrir að beita unnustu sína ofbeldi árið 1998 í Frakklandi. Mannréttindasamtök segja að viðurkenningin sendi út þau hættulegu skilaboð að ekki sé litið á heimilisofbeldi sem alvarlegan glæp. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi