Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fleiri en tveimur bannað að koma saman í Þýskalandi

22.03.2020 - 17:32
epa08313902 German Chancellor Angela Merkel speaks during a press statement at the chancellery in Berlin, Germany, 22 March 2020. German Chancellor Angela Merkel informed after a telephone conference that took place with the Heads of German Regional States on the spread of the coronavirus SARS-CoV-2 which causes the COVID-19 disease. Media reports state, that  the assembly of more than two persons if not family or household members are generally prohibited throughout Germany.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Bann hefur verið sett við því að fleiri en tveir komi saman í Þýskalandi. Angela Merkel kanslari Þýskalands tilkynnti þetta í dag. Það mun eiga við í öllum fylkjum landsins.

Merkel sagði á blaðamannafundi í dag að ákvörðunin hefði verið tekin á fundi með forseta landsins og öllum sextán fylkisstjórum Þýskalands. Hún segir að enginn hafi viljað grípa til svo róttækra aðgerða, en hún sé sannfærð um að þær komi þjóðinni í gegnum hremmingarnar. 

Eina undantekningin á samkomubanninu er fjölskyldur og fólk sem býr saman. 

Þá verður að halda tveggja metra fjarlægð á milli manna á veitingastöðum, kaffihúsum og annarri þjónustu, og eins og hálfs metra fjarlægð á almannafæri. Áfram er leyfilegt að fara til vinnu og menn mega stunda líkamsrækt einir. Fyrirtækjum er gert skylt að setja reglur um hreinlæti fyrir starfsmenn sína.

Merkel tók það skýrt fram að þetta væru ekki tilmæli, heldur reglur. Lögreglan myndi hafa eftirlit með því að þeim yrði fylgt, og sekta fólk sem færi ekki eftir þessu. Bannið gildi í tvær vikur til að byrja með.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV