Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fleiri dauðsföll vegna snáka en ebólu

19.09.2019 - 22:20
Erlent · Afríka · Kenýa
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Áætlað er að eitursnákar verði um 11.000 manns að bana á heimsvísu í hverjum mánuði. Það eru álíka margir og hafa dáið af völdum ebólu í Vestur-Afríku undanfarin tvö ár. Afríkubúar hafa orðið verst úti. Þar deyja yfir 30.000 manns ár hvert eftir bit þeirra. 

Benjamin Menza var bitinn af svartri mömbu í Kenía þegar hann var úti að leika sér, 13 ára gamall. Svartar mömbur geta orðið allt að fjögurra metra langar og drepið fólk á fimmtán mínútum. Þær geta jafnvel drepið fíla með einu biti.

Benjamin Menza - Mynd: SVT / SVT

Ekkert mótefni var til á fyrsta sjúkrahúsinu sem fjölskyldan leitaði á og því var tvísýnt um líf hans. Til allrar hamingju var mótefnið til á næsta spítala. Í dag er Benjamin með tvö ör eftir árásina. Hann hefur ákveðið að helga starfsferilinn því að fræða fólk um snáka, í sérstöku snákasetri. Þar er lögð áhersla á að kenna fólki að umgangast snáka, sem leynast víða í náttúrunni. 

Flest dauðsföll vegna snáka verða í Kilifi-héraði í Kenía. Þar hefur fræðslan líka verið aukin. „Nú veit fólk af okkur og spyr okkur um snáka. Við fræðum fólk um þá. Við veljum eina slöngu, segjum hvaða tegund hún er og hvað skal gera ef maður rekst á hana og er bitinn. Fólk treystir á okkur,“ segir Bonface Momanyi, hjá Bio-Ken snákasetrinu.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin stefnir að því að fækka dauðsföllum vegna snákabita um helming á næstu tólf árum. Það á að gera bæði með því að auka fræðslu og dreifingu mótefnis til sjúkrahúsa. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir