
Fleiri dáið úr ofneyslu í ár en allt árið 2017
Lyfjanotkun ungmenna var efni fundar samstarfshópsins Náum áttum í morgun. Andlát ungs fólks af ofneyslu hafa mikið verið til umræðu það sem af er ári. Af 37 andlátum, sem Embætti landlæknis hefur til skoðunar, eru tíu manns undir þrítugu sem hafa dáið:
„Annað sem við sjáum líka hjá þessu yngra fólki er að það er ekki að fá þessum lyfjum ávísað sjálft. Það fær þessi lyf með einhverjum öðrum leiðum,“ segir Ólafur B. Einarsson verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis.
Það sést í lyfjagagnagrunni landlæknis.
„Hjá yngra fólkinu eru það ópíóðar sem eru algengastir og í bland við ólögleg efni og hjá eldra fólkinu eru það oftast þunglyndislyfin og í bland við áfengi.“
Meðalaldur þeirra sem hafa látist á þessu ári er 47 ár; 25 karlar og tólf konur.
„Allt síðasta ár þá vorum við með 34 andlát til skoðunar þ.a. við erum komin með meira núna en var allt síðasta ár.“
Í fyrra voru tæplega 1100 manns lagðir inn á spítala vegna lyfjaeitrunar. Miðað við 2012 hefur þeim fækkað í eldri aldurshópunum en fjölgað í þeim yngri.
„Við sjáum allt upp í 40% aukningu hjá krökkum sem eru rétt yfir tvítugu.“
Samanburður við nágrannalöndin í þessum efnum er Íslandi í óhag:
„Það er aðalmunurinn á milli Íslands og nágrannaþjóðanna, það eru mun fleiri sem fá ávanabindandi lyf hér á landi heldur en þar.“