Fleiri COVID-19 smit í Bandaríkjunum en í Kína

26.03.2020 - 21:11
Mynd: EPA-EFE / EPA
Bandaríkin eru orðin það ríki þar sem flest greind COVID-19 smit eru í heiminum, tæplega 82.000. Nærri 14.000 smit hafa greinst síðasta sólarhringinn. Metfjöldi hefur skráð sig á atvinnuleysisbætur í landinu en Donald Trump Bandaríkjaforseti er bjartsýnn á að efnahagsástandið verði ekki svo slæmt.

Tilfellum hefur fjölgað afar hratt í Bandaríkjunum undanfarna daga. Síðasta sólarhringinn eru þau orðin 13.785 þegar þetta er skrifað og síðustu þrjá daga hafa yfir tíu þúsund greinst á hverjum einasta degi. Í gær voru staðfest dauðsföll orðin fleiri en þúsund og búið er að tilkynna um 150 dauðsföll í dag. Sjúkdómurinn hefur greinst í öllum fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna. Tilfelli eru enn langflest í New York, um fjörutíu þúsund. 

Í New York hefur verið sett upp bráðabirgðalíkhús þar sem búist er við því að líkhús borgarinnar ráði ekki við það sem koma skal. Kaliforníuríki hefur tekið á leigu heilan spítala til þess að hlúa að smituðum. 

Tvö þúsund milljarða dala efnahagsaðstoð

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt tvö þúsund milljarða dala efnahagsaðstoð vegna ástandsins. Fjárhæðin rennur til einstaklinga, fyrirtækja og sjúkrahúsa. Hlutabréfamarkaðir hafa brugðist vel við þessum fregnum enda um að ræða mestu innspýtingu stjórnvalda í efnahagskerfið í sögunni. 

Atvinnuleysi eykst hratt og aldrei hafa jafn margir sótt um atvinnuleysisbætur á einni viku og í þeirri síðustu, hátt í þrjár komma þrjár milljónir. Donald Trump Bandaríkjaforseti er þó bjartsýnn á betri tíð en hann segist vilja koma atvinnulífinu í gang fyrir páska. „Ég á ekki von á því að þetta verði svo harkalegt. Ég held að þetta verði, þegar við losum um þá verður þetta eins og geimfar. Mjög gott og það fljótt,“ sagði Trump á blaðamannafundi í dag. 

epa08322895 US President Donald J. Trump delivers remarks on the COVID-19 (Coronavirus) pandemic, during a Coronavirus Task Force briefing in the Brady Press Briefing Room at the White House in Washington, DC, USA, 25 March 2020. Congress is finishing final negotiations on a two trillion dollars stimulus package, the largest in U.S history, designed to stabilize the U.S. economy and directly assist individuals in the sudden economic downturn causes by the rapidly intensifying coronavirus crisis.  EPA-EFE/SARAH SILBIGER / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Bandaríkjaforseti er bjartsýnn á betri tíð.

Sérfræðingar hafa bent á að það þurfi að taka mun fleiri sýni en verið sé að gera. Forsetinn vísar þessu á bug. „Við höfum prófað fleiri en nokkrir aðrir. Við höfum getuna til að prófa; við höfum tekið miklum framförum frá úreltu og biluðu kerfi sem ég fékk í arf. Við höfum nú prófa, með besta prófinu, mun meira en nokkur annar,“ sagði forsetinn. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi