Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fleiri börn getin með staðgöngu væntanleg

03.10.2013 - 15:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Drengur, sem kom í heiminn með aðstoð staðgöngumóður á Indlandi árið 2010, verður á næstunni skráður sonur íslensks blóðföður síns. Hann hefur til þessa verið skráður hér á landi sem sonur eiginmanns staðgöngumóðurinnar. Lögmaður fjölskyldunnar hefur tvö önnur staðgöngumál til meðferðar.

Mál drengsins komst í fréttirnar í árslok 2010 vegna þess að erfiðlega gekk að fá vegabréf gefið út fyrir hann svo foreldrar hans kæmust með hann heim til Íslands. Drengurinn kom í heiminn með hjálp staðgöngumóður á Indlandi. Þar sem ekki er viðurkennt í íslenskum lögum að önnur kona en sú sem gengur með og fæðir barn sé móðir þess, var staðgöngumóðirin samkvæmt íslenskum lögum móðir drengsins og eiginmaður hennar skráður faðir hans. Íslenskir foreldrar hans voru því ekki viðurkenndir foreldrar hans samkvæmt íslenskum lögum. Foreldrar hans höfðu hinsvegar gert samning við indverska parið sem fól í sér að þau síðarnefndu afsöluðu öllu tilkalli til barnsins, sem í fæðingarvottorði á Indlandi var skráð barn íslenska parsins. Það var ekki fyrr en í liðnum mánuði sem Héraðsdómur Reykjaness afskráði indverska manninn sem föður drengsins.

Þyrí H. Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður fer með mál fjölskyldunnar. „Það er þannig statt núna að það er búið að ljúka núna dómsmáli sem varðaði vefengingu á skráðu faðerni og það er kominn dómur í því þar sem það faðerni er afskráð og næsta skref í því er að þá verður skráð hið rétta faðerni á Íslandi," segir Þyrí. Gengið verði frá því hjá Sýslumanni á næstunni. Réttarstaða drengsins verður þá orðin sú sama og annarra barna hér á landi enda fari faðir hans þá með forræði hans.

Er kunnugt um fleiri börn getin með staðgöngu 

Þyrí segist vera með tvö önnur staðgöngumál til meðferðar. Þau varða þrjú börn sem getin voru í Bandaríkjunum með aðstoð staðgöngumóður; rúmlega ársgamla tvíbura og tæplega ársgamalt barn.

Þyrí segir kerfið ekki taka nógu vel á móti þeim börnum sem getin séu með þessum hætti. „Það hefur verið mjög mikill og erfiður málarekstur í gangi í stjórnsýslunni vegna þessara tveggja mála,“ segir hún. Ekki hafi komið til dómsmeðferðar ennþá í þessum málum. „Stjórnsýslan er engan veginn í stakk búin til að taka á móti þessum börnum," bætir hún við.

Regluverk vantar til að hægt sé að skrá börnin 

Þyrí segir að regluverk þurfi innan stjórnsýslunnar um mál af þessu tagi. „Mér er kunnugt um að það séu fleiri börn á leiðinni og þau þurfa að fá skráningu inn í landið. Þau þurfa að fá kennitölu, komast inn í heilbrigðiskerfið og ganga þarf frá þeirra réttarstöðu og foreldranna líka. Það þarf að vera til staðar eitthvert regluverk svo hægt sé að gæta jafnræðis og ekki síður að gæta hagsmuna barnanna að þau fái þau réttindi sem þau eiga rétt á samkvæmt íslenskum lögum."

Íslensk stjórnvöld vilji ekki viðurkenna fæðingarvottorð þessara barna sem rétt og lögmæt gögn, segir Þyrí. Fram kom á Alþingi í dag að heilbrigðisráðherra ætli að leggja fram frumvarp á þingi í vetur sem heimilar staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem málið verður rætt innan þingsins en það hefur verið umdeilt frá byrjun. 

Staðganga er því eins og er bönnuð hér á landi.  Aðspurð segist Þyri ekki telja að með því að rýmka regluverk og leyfa skráningu staðgöngubarna sé verið að opna fyrir að fleiri fari út í heim til að fá aðstoð staðgöngumóður. „Þetta er er í gangi. Þetta mun gerast. Þetta er heimilt annarsstaðar í heiminum og foreldrar munu nýta sér þessa leið og það þarf bara að takast á við það. Ég held að það að gera einhverjar reglur til að tryggja hagsmuni þeirra barna hafi engin áhrif í þessa átt. Ég hef ekki trú á því."

Staðganga í velgjörðarskyni

Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er eftir því sem næst verður komist leyfileg í Ástralíu, Kanada, Belgíu og Hollandi, svo dæmi séu tekin. Þá fær staðgöngumóðirin endurgreitt þau útgjöld sem meðgangan felur í sér fyrir hana. Í Bandaríkjunum, Indlandi og fleiri ríkjum er staðgöngumóðurinni greitt sérstaklega fyrir meðgönguna. 

Í Velferðarráðuneytinu fengust þær upplýsingar að heilbrigðisráðherra hyggist á haustþingi gefa þinginu skýrslu um stöðu málsins í heild. Frumvarp um staðgöngu verði ekki lagt fram á haustþingi.
Þyrí segir að ítarlega þurfi að fara ofan í ýmis álitamál tengd staðgöngu, bæði lögfræðileg og ekki síður siðferðisleg. „En lögfræðilegu álitamálin eru mjög mörg og mjög flókin. Til dæmis hvað varðar að framfylgja þessum samningum og frágangi, úrræði ef eitthvað fer úrskeiðis og annað. Þetta eru bara mjög flókin álitaefni sem eiga sér enga hliðstæðu í núverandi löggjöf að neinu leyti."  

[email protected]