Fleiri bíða lengur eftir hjúkrunarrými

25.12.2017 - 17:42
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fólki á biðlista eftir hjúkrunarrými fjölgaði um helming frá því í janúar 2014 þar til í fram að síðasta mánuði. Um þriðjungur karla og hátt í helmingur kvenna hefur beðið meira en 90 daga eftir plássi.

Þetta kemur fram í nýjum Talnabrunni Landlæknisembættisins. Samkvæmt honum voru 365 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrými í síðasta mánuði. Það er talsverð fjölgun frá því sem verið hefur síðustu ár. Í ársbyrjun 2014 voru tæplega sex einstaklingar á hverja þúsund íbúa 67 ára og eldri á biðlista eftir hjúkrunarrými. Í síðasta mánuði var það hlutfall komið upp í næstum níu á hverja þúsund. En það er ekki aðeins svo að fólki á biðlista hafi fjölgað heldur hefur biðin einnig lengst. Þeim sem höfðu beðið lengur en 90 daga hafði þá fjölgað úr þremur á hverja þúsund í tæplega fimm. Á sama tíma fór miðgildi biðtímans úr 46 dögum árið 2014, í 69 daga. Algengara er að konur þurfi að bíða lengi eftir hjúkrúnarrými en karlar. Þrír af hverjum fjórum sem fá varanlegt hjúkrunarrými eru 80 ára eða eldri.

Að því er fram kemur í Talnabrunni Landlæknis eru ýmsar ástæður fyrir því að biðtími eftir hjúkrunarrými hefur lengst. Ein er sú að þjóðin er að eldast og önnur að fjölbýli hefur verið breytt í tvíbýli eða einbýli. Tekið er fram í Talnabrunninum að hjúkrunarrými séu hlutfallslega fleiri hérlendis en annars staðar á Norðurlöndum en á móti kemur að þar er víða öflugri heimahjúkrun og heimaþjónusta.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi