Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fleiri bækur í ár vegna óbeinna áhrifa frumvarps

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

Fleiri bækur í ár vegna óbeinna áhrifa frumvarps

25.11.2019 - 09:18

Höfundar

Formaður Félags íslenskra bókaútgefanda segir að ný löggjöf um endurgreiðslu ríkisins á hluta kostnaðar útgáfu bóka á íslensku sé þegar farin að hafa jákvæð áhrif á bókamarkaðinn, þrátt fyrir að þær séu ekki almennilega komnar í gagnið ennþá.

Eins og fram hefur komið hafa aldrei verið gefnar út fleiri bækur, hvort sem verið er að tala um skáldsögur, ljóðabækur eða barna- og unglingabækur. Heiðar Ingi Svansson formaður íslenskra bókaútgefenda var gestur í Vikulokunum og hann telur að þetta megi rekja til eins konar óbeinna áhrifa frumvarpsins um endurgreiðsluna. „Það er kannski erfitt að skýra þetta fyrir fólki sem er ekki beint inni í bókabransanum. En það er hægt með hagkerfi líka, tala þau upp, og tala þau niður. Svona stemning og hvatning skiptir máli,“ segir Heiðar Ingi. 

Bókaútgáfa hafi líka oft á tíðum verið drifin áfram af öðru en Excel-skjölum og hagfræðilíkönum. „Hún hefur meira verið byggð á bjartsýni, trú og oft hugsjón.“ Á allra síðustu árum hafi þó bjarstýnin farið þverrandi. „Hvert árið á fætur öðru var minnkun á sölu og við vorum komin á krítískan punkt. Staðreyndin var sú að á tíu árum upp að 2017 minnkaði sala um 40% uppreiknað við vísitölu. Þannig þetta var komið að þolmörkum og þá var auðvitað stemningin og bjartsýnin ekki mikil. Bara þegar umræðan um frumvarpið fór af stað gerðist eitthvað andlegt, sálrænt, það voru óbein áhrif þó enginn hafi fengið neina endurgreiðslu núna.“

Þá telur Heiðar að sjóðurinn sem ætlað er að styrkja útgáfu barna- og unglingabóka hafi sitt að segja, auk þess sem nýleg könnun bendi til þess að lestur sé að aukast almennt á Íslandi. „Ég skynja á samfélaginu að hjólin séu farin að snúast með okkur. Við vorum svolítið að synda á móti straumnum. En nú vona ég að það nái allan hringinn og útgáfan nái sér á strik.“

Næst þarf að styrkja skólabókasöfn

Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur tekur undir með Heiðari, að henni finnst hún finna fyrir meðbyr með bókmenntum í samfélaginu. Þá telur hún alltof mikinn bölmóð hafa ríkt um stöðu bókarinnar undanfarin ár, þannig að hann beinlínis hafi áhrif í þá veru að fæla börn frá lestri. „Allt of lengi vorum við að hrópa í fjölmiðlum að drengir og börn læsu ekki neitt. Þessi sífellda klisja, bókaþjóðin hætt að lesa, drengir ólæsir upp til hópa, hún stóðst ekki þegar þetta var kannað.“ Krakkar hafi heilmikinn áhuga á lestri fái þau hvatningu og komist í nóg af góðum bókum.

„Vandinn var kannski að þeim var sagt opinberlega að þau ættu ekki að lesa. Það væri ekki strákalegt að lesa, ekki það sem krakkar gerðu. Því börn lifa sig inn í hlutverkið sem þeim er úthlutað.“ Brynhildur telur endurgreiðslukerfið og barnabókasjóðinn mikilvægt fyrsta skref en næst þurfi að styrkja skólabókasöfnin. „Ég held að fólk átti sig ekki mikið á hvað niðurskurður til skólasafna hefur haft mikil áhrif á útgáfu barna- og unglingabóka. Skólasöfnin voru skorin niður við hrun, sum niður í núll og sum í brot af því sem þau voru áður, og hafa bara ekki rétt úr kútnum. Á sama tíma hefur bókaverð hækkað um 50% að raungildi.“

Bergsteinn Sigurðsson ræddi við Heiðar Inga Svansson og Brynhildi Björnsdóttur í Vikulokunum. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Íslendingar lesa 2,3 bækur á mánuði

Bókmenntir

Það þarf svo miklu meira af bókum

Bókmenntir

„Ein verstu ótíðindi sem höfundar hafa heyrt“

Menningarefni

 „Ástríðan hefur alltaf verið til staðar"