Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Flaug dróna yfir eldgosið í beinni

03.02.2015 - 14:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandaríska sjónvarpsstöðin ABC var með beina útsendingu frá Holuhrauni þar sem veðurfræðingurinn Ginger Zee fræddi bandaríska áhorfendur um jarðeldana og ræddi við Björn Oddsson, jarðfræðing og verkefnastjóra hjá Almannavörnum, á meðan dróni flaug yfir jarðeldana.

ABC hefur nú birt þrjú myndskeið frá Holuhrauni - nýjasta myndbandið  er ítarlegast en þar lýsir Björn því sem fyrir augum ber. Zee gerir mikið úr því að sjónvarpsáhorfendur fái nú að sjá hluti sem aldrei hafi sést áður í beinni útsendingu.

Björn upplýsir meðal annars að hraunið sé nú orðið stærra en Manhattan. Björn greinir einnig áhorfendum frá því að svæðið sé hættulegt vegna gasmengurinnar en tekur fram að gosstöðvarnar séu fjarri mannabyggðum.

Það er  leikstjórinn  Eric Cheng sem stýrir drónanum fyrir ABC en hann vakti mikla athygli fyrir myndband af gosinu í Holuhrauni sem birtist á Youtube síðst liðið haust.

Í öðru myndskeiði sést Zee útskýrir fyrir áhorfendum hvernig útsendingin er byggð upp og hvernig tökuliðið ætli meðal annars að notast við dróna til að gefa áhorfendum einhverja hugmynd af því jarðeldunum.

Og í þriðja myndskeiðinu fjallar hún um hvernig tökuliðið fór að því að komast á staðinn og hún bendir á að ekki sé hægt að fara að gosstöðvunum nema með leyfi frá yfirvöldum.

Gosið hefur nú staðið í fimm mánuði og Ginger Zee sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hún væri mjög spennt - hún hefði komið nálægt eldgosum á Hawaii en það væri ekkert í líkingu við það sem nú væri í gangi við Holuhraun.

Veðurstofan varaði við talsverðri gasmengun við gosstöðarnar fyrir hádegi í dag.  Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, sagði í samtali við fréttastofu að tökuliðið yrði vestan við jarðeldana þar sem gert væri ráð fyrir minni gasmengun.

Víðir sagði sjónvarpsstöðina hafa gert miklar öryggiskröfur og augljóst væri að sjónvarpsfólkið væri vant því að vera með útsendingar frá óvenjulegum stöðum.

[email protected]