Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flateyjarsókn vill tilheyra Stykkishólmi

04.03.2019 - 16:10
Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV/Landinn
Sóknarnefnd Flateyjarkirkju er mótfallin því að Flateyjarsókn verði hluti af nýju sameinuðu prestakalli Hólmavíkurprestakalls- og Reykhólaprestakalls og hyggst sækja um að verða hluti af Stykkishólmsprestakalli. Kirkjuþing samþykkti um helgina tillögu um sameiningu prestakalla í Austurlands- og Vestfjarðaprófastsdæmum.

Prestaköll sameinuð á Vestfjörðum og Austfjörðum

Hólmavíkur- og Reykhólaprestaköll í Vestfjarðaprófastsdæmi verða sameinuð í eitt prestakall sem á að heita Breiðafjarðar- og Strandaprestakall og þá sameinast Djúpavogs-, Heydala-, Kolfreyjustaðar-, Eskifjarðar- og Norðfjarðarprestaköll í eitt prestakall sem á að heita Austfjarða-prestakall. Í tilkynningu segir að tillögurnar séu hluti af stefnu biskupafundar um nýskipan prestakalla á landsvísu sem unnið hafi verið að. Felist í þeirri stefnu að horfið verði frá einmenningsprestaköllum, þar sem því verði við komið. Einnig var samþykkt að leggja niður Saurbæjarprestakall í Vesturlandsprófastsdæmi.

Sækja um að verða hluti af Stykkishólmsprestakalli

Tillögurnar voru nýverið kynntar á Reykhólum og greindi bb.is frá því að sóknarnefnd Flateyjarkirkju er mótfallinn sameiningunni og því að Flateyjarsókn verði hluti af sameinuðu prestakalli. Í ljósi samþykkta kirkjuþings hyggst sóknarnefnd Flateyjarkirkju og sóknarbörn sækjast eftir því að Flateyjarsókn færist úr nýju sameinuðu prestakalli og verði hluti af Stykkishólmsprestakalli. Gunnar Sveinsson, formaður sóknarnefndar Flateyjarkirkju, segir að sóknarnefnd og sóknarbörn í Flateyjarsókn sjái meiri möguleika í því að Flateyjarsókn tilheyri Stykkishólmsprestakalli. Betri samgöngur og meiri tengsl eru milli Flateyjar og Stykkishólms en við Reykhóla. Á næstunni verður sótt formlega um flutning sóknarinnar og leitað eftir formlegu samþykki prófasts Vestfjarða, sóknarnefndar og sóknarprests Stykkishólmssóknar og Biskupsstofu.