Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Flámæli bannað í Ríkisútvarpinu

13.01.2012 - 20:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Koma átti í veg fyrir, um miðja síðustu öld, að flámælt fólk fengi að tala í Ríkisútvarpið eða stiga á svið í Þjóðleikhúsinu. Þetta sýna gögn sem finna má í Þjóðskjalasafninu. Börn sem höfðu þennan framburði voru send í sérkennslu til að reyna að venja þau af flámælinu.

Nefndir á vegum fræðslumálastjóra og menntamálaráðuneytisins lögðu til um miðja síðustu öld að dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins og stjórn Þjóðleikhússins sæju til þess að flámælt fólk kæmi ekki fram. 

Tillögurnar voru hluti af hugmyndum Björns Guðfinnssonar prófessors um að koma upp samræmdum framburði á Íslandi. Nefndin samdi reglur um íslenskan framburð í ellefu greinum og í fimm þeirra er talað sérstaklega um flámæli eða hljóðvillu eins og hún var kölluð. Þar segir meðal annars að "Stjórn Þjóðleikhússins ber að sjá til þess, að hljóðvilla sé ekki viðhöfð í leikhúsinu, nema listraænar ástæður krefji" og að "Dagskrárstjórn  Ríkisútvarpsins ber að hafa eftirlit með því, að hljóðvilltir menn tali ekki í útvarp"

Börn sem greindust með flámæli eins og það var orðað voru send í sérkennslu og fengu foreldrar þeirra  béf þar sem m.a. stóð. "komið hefur í ljós hjá barni yðar smávegis framburðarveilur og mikilvægt að úr þessu sé bætt."

Sagt er frá þessu í útvarpsþættinum "Þetta þótti bara ljótt og leiðinlegt" sem verður á dagskrá Rásar 1 á sunnudaginn  klukkan 15:00.  Þar er rætt við fólk sem  er og var flámælt eins og t.d. Sigurbjörgu  Sigurbjörnsdóttur frá Rauðholti í Hjaltastaðaþingá  "

"Þetta voru náttúrlega kennararnir og þeir voru búnir að læra annarsstaðar. Þeir fundu að við töluðum öðruvísi og  þetta þótt bara ljótt og leiðinlegt"

Elís Pétur Sigurðsson er búsettur á Akureyri

"Það er oft skotið á mig um flámælskuna en ég er kominn fyrir mörgum árum yfir það,  það hefur ekkert að segja, ekki á nokkurn hátt"