Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Flakið líklega ekki flutt fyrr en á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Sveinn H. Guðmarsson - RÚV
Rannsókn á flugslysinu sem varð suður af Hafnarfirði síðdegis í gær hefst upp úr hádegi. Þetta staðfestir Þorkell Ágústsson sem stýrir rannsókninni fyrir hönd Rannsóknarnefndar samgöngslysa. Þorkell á ekki von á því að flak vélarinnar verði flutt fyrr en á morgun.

 Fréttin uppfærð klukkan 10:49

Þorkell segir í samtali við fréttastofu að þeir verði við rannsókn í allan dag en þeir voru að störfum langt fram á kvöld í gær. Mjög erfitt er að komast að slysstaðnum - úfið hraun, þykkur mosi og gjótur. Þyrla Landhelgisgæslunnar verður því notuð til að flytja þann búnað sem til þarf.

Flugvélin, sem er af gerðinni Tecnam, var kennsluflugvél í eigu Flugskóla Íslands og báðir mennirnir voru kennarar. Flugskólinn hafði nýverið keypt fimm slíkar vélar sem nota á til kennslu. Tveir menn létust í slysinu - þeir voru báðir kennarar við Flugskóla Íslands.

Þegar rannsókn á slysstað er lokið verður flakið flutt í flugskýli rannsóknarnefndarinnar á Reykjavíkurflugvelli.  

3 ár gætu liðið þar til Rannsóknarnefndin skilar skýrslu -  nefndin getur sent frá sér bráðabirgðaskýrslu um það bil mánuði eftir slys en slíkt er eingöngu gert í undantekningartilvikum.