Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Flækingurinn - Kristín Ómarsdóttir

Mynd: Forlagið / Forlagið

Flækingurinn - Kristín Ómarsdóttir

20.07.2015 - 16:17

Höfundar

Bók vikunnar að þessu sinni er Flækingurinn, nýjasta skáldsaga Kristínar Ómarsdóttur. Hér má hlusta á Kristínu lesa úr bókinni auk þess sem rætt er við Kristínu um bókina, sögusvið hennar og persónur.

Flækingurinn eftir Kristínu Ómarsdóttur er samtímasaga úr Reykjavík og segir frá Hrafni Frey Hrafnssyni sem vegna slyss - eða var það kannski ofbeldisverk - í æsku getur ekki talað svo skiljanlegt sé öðrum. Hann heyrir þó og vill gjarnan tjá sig. Í stað þess að mæla er hann hins vegar háður því að skrifa niður það sem hann vill segja. 

Hrafn Freyr er utangarðsmaður, flækingur í samfélaginu, einn af þeim sem við sjáum stundum staupa sig á Ingólfstorgi. Í tengslum við Hrafn Frey kynnist lesandinn fjölda annarra persóna því kunningjasamfélagið á götunni í Reykjavík er fjölmennt og sterkt. Hrafn venur til að mynda komur sínar í hús góðrar konu að nafni Laufey. Laufey verður líkt og móðir stórs hóps utangarðsfólks, sem leitar skjóls í húsi hennar, þótt það að vera móðir sé kannski það sem hún síst vill vera. Hrafn Freyr á líka velgjörðarkonu sem notfærir sér hann ekki síður en hann hana sem og vini sem vilja ná fram hefndum í samfélaginu. 

Í þættinum Bók vikunnar að þessu sinni ræðir Kristín Svava Tómasdóttir við þau Elínu Björk Jóhannsdóttur bókmenntafræðing og Gauta Kristmannsson þýðingarfræðing og prófessor við Háskóla Ísland um skáldsöguna Flækingurinn eftir Kristínu Ómarsdóttur. 

Kristín Ómardóttir er einn frumlegasti höfundur íslenskra samtímabókmennta. Hún er jafnvíg á flestar tegundir skáldskapar og hefur sent frá ljóðabækur, smásagnasöfn og skáldsögur auk þess sem allmörg leikrita hennar hafar verið flutt á sviði sem og í útvarpsleikhúsinu. 

Mynd:  /