Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Flæðir beggja megin þjóðvegar

04.10.2015 - 14:03
Mynd með færslu
Skaftárhlaup 2015. Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Vatn úr Skaftárhlaupi flæðir beggja vegna þjóðvegar í Skaftárhreppi. Sérfræðingur Veðurstofunnar telur að litað jökulvatn berist í veiðiár. Brúin yfir Eldvatn við Ása stendur enn. Óttast er að hún hrynji því hlaupið hefur hrifið með sér jarðveg undan öðrum stólpa hennar.

Rennsli Skaftárhlaups hefur minnka talsvert á flestum stöðum að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi. Samkvæmt mælingum sem birtast á vef Veðurstofunnar er rennslið komið í um 350 rúmmetra á sekúndu í Eldvatni við Ása. Við Sveinstind renna fram um 260 rúmmetrar á sekúndu í Skaftá. Það er innan við tíundi hluti þess vatns sem streymdi fram þegar hlaupið reis hæst.

Jökulvatn í lindarvatn

Snorri Zóphóníasson, sérfræðingur hjá vatnavársviði Veðurstofunnar, segir að vatnsyfirborð hafi lækkað í árfarvegum en hækkað í hrauninu. Vatn seytli gegnum jarðveginn og undir þjóðveginn. Kolmórautt jökulvatn renni nú einnig sunnan við þjóðveginn. „Það flæðir niður hraunið og undir þjóðveginn. Hraunið er svo lekt að vatnið flæðir undir þjóðveginn og þar er örstutt út í jaðar hraunsins þar sem Tungulækur og Grenilækur eiga upptök sín.“

Snorri bendir á að jökulvatn nái nú fram af brún hraunsins út á Landbrotshraunið sem er undir Eldhrauninu og renni eftir farvegum lindalækja, sem annars renna tærar undan hrauninu. Jökulvatn sé þegar komið í Tungulæk. Vatnsrennsli þar sé nú þrefalt meira en venjulega og fari ört vaxandi. „Vatnið er komið í gegn og það er komið jökulvatn í Tungulækinn. Hann hefur vaxið verulega frá því í gær.“ Vatnið tekur breytingum. „Það fer að verða jökullitað,“ segir Snorri og kveðst ekki viss hverjar afleiðingarnar verði. Það hversu straumhart vatnið verður getur ráðið því hvort það verði landskemmdir.

Búist er við mikilli rigningu á flóðasvæðinu í dag og á morgun. Brúin yfir Eldvatn hefur verið lokuð frá í gær, en mögulegt er að hún hrynji, því hlaupvatnið hefur rifið jarðveg undan stólpahennar austanmegin, svo mjög að hann stendur að mestu leyti í lausu lofti.

Óvíst með brúna

„Staðan er svolítið óviss. Við höfum ekki séð aðstæður í dag en vatnið hefur minnkað. Brúin, eins og hún stóð í gærkvöld, stendur vel en um leið og grefur lengra undir er hætta á ferðum,“ sagði Guðmundur Valur Guðmundsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni og brúarsérfræðingur, þegar hann var á leið austur í hádeginu til að kanna aðstæður við Eldvatnsbrúna. „Ef rofið er komið niður fyrir einhver sterkari lög þá er mögulegt að það nái ekki þarna undir í þessu hlaupi.“

Ef brúin stendur hlaupið af sér þarf að styrkja hana, huga að rofvörnum og steypa undir stöpla. „Þó er að miklu að huga. „Það eru miklar farvegabreytingar í svona stórum hlaupum. Það kemur í ljós þegar vatnið minnkar.“

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV