Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Flæðir áfram, líkt og fallegt fljót

Mynd: Kim Matthäi Leland / Wikimedia Commons

Flæðir áfram, líkt og fallegt fljót

19.05.2017 - 09:47

Höfundar

Hvernig fylgir maður eftir gríðarlega vinsælum frumburði? Ekki með því að endurtaka sig, lexía sem Ásgeir Trausti hefur haft gæfu til að fylgja. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í aðra plötu hans, Afterglow, sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Vinsældir Ásgeirs Trausta í kjölfar fyrstu plötunnar, Dýrð í dauðaþögn, voru um margt athyglisverðar. Einhvern veginn hitti hann þráðbeint í mark hvað fjöldann varðaði en hélt um leið í virðingu þeirra sem þykir gaman að strjúka á sér hökuna og þykjast gáfulegir. Ég hef stundum kallað þetta að taka „Beck“, með vísun í tónlistarmanninn. Vinsældir en um leið rými fyrir tilraunastarfsemi.

Hægt og bítandi

Í kjölfarið kom plata fyrir erlendan markað, byggð á þeirri fyrstu, og undanfarin ár hefur Ásgeir verið svo gott sem á stanslausu ferðalagi þar sem hann hefur hægt og bítandi byggt upp aðdáendahóp sem dreifist um veröld víða. Bransinn sem Ásgeir er í byggir enn á því að menn gefi út nýtt efni, krafa sem kemur utan frá en um leið er Ásgeir á þeim aldri (24 ára) að sköpunarsafinn flæðir strítt um æðarnar. Biðin eftir nýju efni er því búinn að vera giska löng og ströng en hún var þess virði. Það get ég staðfest.

Plata tvö er alltaf erfið. Sérstaklega ef sú fyrsta sló í gegn. Því hvað ætlar þú að gera? Endurtaka leikinn og vera öruggur eða þyngja þig og taka áhættuna á að fæla fólk frá þér? Venjulega velur fólk síðari kostinn, en það er ekki sama hvernig það er útfært. Ef við skilgreinum svigaplötu Sigur Rósar sem aðra plötu þeirra (erlendis sannarlega) var naumhyggjuleg melankólía skrúfuð upp í ellefu og þeir komust upp með það. OMAM, Of Monsters and Men, er ágætt dæmi líka. Önnur plata þeirra var dekkri og þyngri en frumburðurinn en þó ekki um of.

Svo ég noti þessi tvö dæmi til hliðsjónar hallar Ásgeir sér nær Sigur Rós en OMAM. Ef eitthvað er, fer hann ansi nálægt þolmörkum þess sem boðlegt er í þessum fræðum en uppsker eftir því, að minnsta kosti listrænt á litið. Afterglow er hugrakkt verk. Platan er seintekin, gefur sig ekki og eftir að hafa þrætt sæmilega kunnuglegar slóðir á fyrri hluta plötunnar tekur Ásgeir stökk inn á ókannað svæði á þeim seinni.

Fallegt

Platan opnar með titillaginu sem er leitt af snoturri, fallegri melódíu og næstu lög rúlla í kunnuglegum, rafskotnum „ambient“-poppfasa. Himnesk falsetta Ásgeirs styður við framvinduna en tónninn fyrir hinu ókannaða er sleginn í fimmta lagi, „Underneath it“. Það er list að stýra tónlist „sem er varla þarna“ á farsælan hátt. Annað hvort skríður hún undir skinnið eða gufar upp en Ásgeir nær að knýja fram fyrri áhrifin eins og sannur völundur. Seinni hluti plötunnar byrjar með lagi sem ber hæfandi titil, „Nothing“, og listamenn eins og Talk Talk og James Blake koma helst upp í hugann („Chameleon Day“ af Colour of Spring t.d.). Þögnin er nýtt á skilvirkan hátt og lögin hanga yfir í ókennilegri spennu. „Dreaming“ er leitt út með seyðandi brassi og síðustu tvö lögin, hið Radiohead-lega „Fennir yfir“ og síðan „Hold“ rúlla eins og sálmar. Lágvært, strípað – áhrifaríkt.

Á Afterglow sannar Ásgeir að hann er ekki að tjalda til einnar nætur. Öryggið getur nefnilega verið eyðileggjandi værðarvoð og á meðan áhættan skelfir, sannarlega, býr hún yfir neistanum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Aron fer upp á við en angistin læsir klónum

Tónlist

Hrátt og bikað þjóðlagarokk

Tónlist

Óreyndir en efnilegir

Mynd með færslu
Popptónlist

Á ökrum Ameríku