Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fjórum vespum stolið í Kópavogi

26.08.2016 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ungir rafvespueigendur í Kópavogi haf orðið fyrir barðinu á þjófum.  Fjórum vespum var stolið þar í gær.

Við Kársnesskóla var einni vespunni stolið, annari frá Menntaskólanum í Kópavogi og tveimur var stolið við Íþróttahúsið Digranesi á meðan eigendurnir voru á handboltaæfingu.  Aðalsteinn Jónsson er faðir annars drengjanna.

„Það var þannig að ég er bara að koma úr sundlauginni bara rétt um kvöldmatarleytið og þá hringir strákurinn í mig, sá yngsti, 14 ára og segir bara: pabbi, vespunni minni var stolið.“

Í ljós kom að tveimur vespum hafði verið stolið við íþróttahúsið, og reynt var að taka fleiri. Þá grunar Aðalstein að þjófarnir hafi jafnvel fylgst með drengnum um daginn.

„Hjá stráknum mínum hafði verið reynt, hafði verið fiktað við lásinn og reynt að klippa á hann fyrr um daginn, síðan fer hann upp í Digranes seinnipart dags á æfingu og þá heppnast þetta.“

Gunnar Hilmarsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að grunur leiki á að þeir sömu hafi verið á ferð í öllum tilvikunum og að þjófarnir hafi stórar og góðar klippur meðferðis sem ráði jafnvel við sterkustu lása. Þetta virðist hins vegar bundið við Kópavoginn, því að í Hafnarfirði og í Reykjavík kannast lögreglan ekki við að óvenjumikið sé um þjófnaði á vespum þessa dagana. 

En Aðalsteinn er svekktur eftir atburði gærdagsins.

„Mér finnst þetta vera svo sorglegt að krakkar sem eru að versla sér eitthvað fyrir fermingarpeningana og annað og svo koma einhverjir og finnst ekkert mál að stela þessu eins og enginn sé morgundagurinn.“
 

 

Jón Þór Víglundsson
Fréttastofa RÚV