Fjórir smitaðir á Austurlandi

26.03.2020 - 17:58
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fjögur kórónuveirusmit hafa nú greinst á Austurlandi. Enginn þeirra fjögurra sem greinst hafa eru mikið veikir. Tveir voru í sóttkví þegar smit var greint, en alls eru 160 í sóttkví í fjórðungnum.

Eini læknir Vopnfirðinga og annar starfsmaður á heilsugæslustöðinni þar eru komnir í sóttkví. Austurfrétt segir frá því að læknir hafi þegar verið sendur til starfa á Vopnafirði og unnið sé að frekari mönnun þar. Eins og áður hefur komið fram eru 14 heilbrigðisstarfsmenn á Egilsstöðum í sóttkví.

Vandaðar viðbragðsáætlanir mikilvægar

Í tilkynningu frá aðgerðarstjórn Almannavarna á Austurlandi er minnt á hve þunt högg það getur verið fyrir fyrirtæki og stofnanir að missa starfsmenn í einangrun og aðra í sóttkví. Mikilvægt sé því að viðbragðsáætlanir innan þeirra taki mið af þessum möguleika. Í þeim tilvikum þar sem smit hefur greinst hafi viðbragðsáætlanir verið til staðar og röskun á starfsemi því lítil.

Nokkar athugasemdir um framkvæmd samkomubanns

Starfsmenn á vegum aðgerðarstjórnar hafa fylgst með hvernig til hefur tekist með samkomubann, meðal annars með heimsóknum í verslanir og á veitingastaði. Nokkrar athugasemdir hafa verið gerðar en ráðstafanir heilt yfir verið til fyrirmyndar. Þá er unnið að greiningu á því hvort útlendingar sem búa og dvelja á Austurlandi fái nægar upplýsingar um COVID-19.

Aðgerðarstjórn bendir á að framvegis verða tilkynningar sendar daglega með upplýsingar um stöðu mála, ábendingar, tilkynningar og fleira. Þær birtast á www.logregla.is, á Facebooksíðu lögreglu og heimasíðum sveitarfélaganna.