Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjórir listar berjast um völdin

Merki Seltjarnarness við Sæbraut.
Vinsælt er að ganga og hjóla frá Eiðisgranda til Seltjarnarness. Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Málefni grunnskóla og leikskóla annars vegar og fjármál sveitarfélagsins hins vegar ber hvað hæst í málflutningi frambjóðenda til bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi. Oddvitar Samfylkingarinnar og Viðreisnar/Neslista leggja áherslu á að gera verði betur í skólamálum. Bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins segir vel unnið í skólamálum og að fjárhagurinn sé í góðum málum. Oddviti nýs framboðs segir hins vegar að slaknað hafi á stjórn fjármála bæjarins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með meirihluta á Seltjarnarnesi frá því í hreppsnefndarkosningum árið 1950. Flokkurinn fékk 67,2 prósenta fylgi árið 2006, sem er það mesta í sögunni, 58,2 prósent fjórum árum síðar og 52,6 prósent í síðustu kosningum. Fjórir listar eru nú í framboði. Auk Sjálfstæðisflokksins eru það Samfylkingin, sameiginlegt framboð Viðreisnar og Neslista og Fyrir Seltjarnarnes.

Farið út af sporinu í fjármálum

Fyrir Seltjarnarnes er nýtt framboð. Skafti Harðarson, oddviti listans, segir að aðstandur hans sé hópur Seltirninga sem hafi hist um nokkurra ára skeið og rýnt í bæði tölur og starfsemi bæjarins. Seltjarnarnes eigi sér langa sögu ráðdeildar og góðrar fjármálastjórnar. „Við teljum að það hafi nokkuð verið farið út af sporinu síðustu ár,“ segir Skafti og nefnir sérstaklega útsvarshækkun árið 2012 og að bærinn hafi verið rekinn með tapi í fyrra. Þá hafi risalán verið tekið sem hafi verið nýtt til helminga til framkvæmda og lífeyrisskuldbindinga. „Við teljum bæinn kominn út í gæluverkefni og verkefni sem sveitarfélag eigi ekki að vera vasast í.“ Þetta segir hann að geti komið niður á innviðum og grunnþjónustu ef síðar þurfi að skera niður vegna ónægrar fjármálastjórnar. 

Skafti segir framboðið vilja halda uppi góðum innviðum og varðveita aðgang að náttúruperlum. Þá vilji framboðið fara varlega í skipulagsmálum og ekki skipuleggja byggð hraðar en svo innviðirnir ráði við það.

„Við erum framboð ráðdeildar og ábyrgðar og gagnsæis í ákvarðanatöku,“ segir Skafti. Hann segir að þó svo margir í flokknum hafi einhvern tímann á lífsleiðinni tengst Sjálfstæðisflokknum sé þetta ekki klofningsframboð úr honum. Þarna megi meðal annars finna fólk sem kynni annars að vera í Miðflokknum eða óháðir auk þess sem framboðið sæki inn á miðjuna. Hann á þó ekki von á stuðningi af vinstrivængnum.

„Við ætlum að gera það sem kosningapróf RÚV telur ekki hægt, að bæði spara og bæta þjónustu á sama tíma.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Áhersla á framtíðarsýn

„Sveitarfélagið hefur lent á veggjum vegna skorts á framtíðarsýn,“ segir Guðmundur Ari Sigurjónsson, oddviti Samfylkingarinnar. Framtíðarsýn sé einmitt yfirþema í málefnaáherslum flokksins fyrir kosningar. Hann nefnir leikskólamál sem dæmi um þetta. Í haust verði tvær deildir reknar í gámum. Samfylkingin vilji því að þriðja leikskólahúsnæðið verði byggt. „Við getum þá boðið öllum börnum frá eins árs aldri leikskólapláss á sama reitnum.“

„Svo er okkur mjög annt um hvernig við ætlum að stuðla að nýliðun í kennaraliðinu,“ segir Guðmundur Ari. Meðal hugmynda í þá veru sé stofnun þróunarsjóðs til að laða að nýja kennara. Hann segir að mjög öflugt starfslið sé í grunnskólunum en það styttist í að margt af því fólki hætti að vinna vegna aldurs. Því sé mikilvægt að laða að nýja kennara. 

Meðal annarra mála eru stytting vinnuvikunnar, sem verði reynd í leikskólum bæjarins til að byrja með. Þar sé stefnt að því að draga úr álagi og veikindum. 

Skipulagsmálin eru annað stóru málanna á næsta kjörtímabili, segir Guðmundur Ari. Miðbæjarskipulagið er enn óklárað og það er mál sem Samfylkingin vill leiða á næsta kjörtímabili. Guðmundur Ari segist vilja fá tengingu við borgarlínu inn á miðbæjarsvæðið á Seltjarnarnesi. Það myndi bæði styrkja íbúabyggð og atvinnustarfsemi. Þetta segir hann að verði að gera í samráði við íbúana. Að auki vilji Samfylkingin ráðast í þróunarverkefni fyrir lítið húsnæði sem henti fyrstu kaupendum. Nú vanti slíkt húsnæði á Seltjarnarnesi. 

Skólamálin vega þyngst

„Við leggjum áherslu á meiri metnað í þjónustu við bæjarbúa. Þar vega skólamálin þyngst,“ segir Karl Pétur Jónsson, oddviti framboðs Viðreisnar og Neslistans. „Við teljum að ef bæjarstjórn ákvæði að þessi skóli ætti að vera í fremstu röð þá væri gerlegt að koma honum þangað á örfáum árum.“ Karl Pétur segir að félagslegur bakgrunnur barnanna á Seltjarnarnesi sé mjög sterkur, bæði hvað varðar menntun foreldra og félagslega þætti. „Þess vegna er þetta bara spurning um hvað skólanum er gefið inn og hve mikinn metnað bæjarfélagið setur í að keyra gæðin upp.“ Karl Pétur segir að meiri metnaður geti skilað betri skóla. Einnig þurfi að hafa í huga að ekki hafi gengið sérstaklega vel í samkeppni um að fá nýtt starfsfólk inn í skólann. Þannig hafi aðeins ein umsokn borist um stöðu skólastjóra á kjörtímabilinu. „Þetta virðist ekki vera mjög eftirsóttur vinnustaður núna og því þurfum við að breyta.“ Bæta þurfi vinnuaðstöðu bæði nemenda og kennara og hækka verði laun kennara.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd í 68 ár og Karl Pétur var kosinn varabæjarfulltrúi fyrir flokkinn í síðustu kosningum. Hann gekk síðar til liðs við Viðreisn og Neslistann. „Ég fæ ekki betur séð en að það sé kominn doði í mannskapinn,“ segir Karl Pétur um fyrrverandi flokkssystkin sín. Hann segir mikilvægt að koma málum á hreyfingu eftir kyrrstöðu í langan tíma. Hann segir að bjóða verði upp á betra samfélag og að það verði ekki gert öðruvísi en með góðri stjórnun og því að bærinn veiti lögbundna þjónustu af myndarskap og kærleika. Þá lýsir hann áhyggjum af því að í framboði séu listar sem horfi ekki til þess að bjóða mikla og góða þjónustu heldur fyrst og fremst til þess hvernig megi spara í rekstri bæjarins. Karl Pétur segir að fara verði vel með pening bæjarins en hafa jafnframt í huga að Seltjarnarnes hafi verið byggt upp af stórhug. Þá segir hann að gera verði betur við eldra fólk í bænum og tryggja því þjónustu sem taki mið af ólíkum aðstæðum þeirra og atorku, einnig verði að leita meira eftir skoðunum þess og ráðum í bæjarkerfinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Traust fjármálastjórn í öndvegi

„Við leggjum áherslu á trausta fjármálastjórn sem hefur alltaf verið í öndvegi hjá okkur,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins. „Það hefur alltaf verið leitað leiða að lækka álögur á bæjarbúa. Það skiptir miklu máli að skuldsetning bæjarins er mjög lág, með því lægsta sem gerist á landinu.“

„Núna stefnum við að því að byggja nýjan leikskóla og byrja á því strax í haust. Það er búið að vinna forvinnu hvað það varðar og við stefnum að því að taka börn inn tólf mánaða,“ segir Ásgerður. Hún segir þörf fyrir uppbyggingu í skólamálum þar sem íbúum hafi fjölgað og margt ungt fjölskyldufólk sé í bænum. Hún vísar til góðs árangurs Seltjarnarness í PISA-prófum og segir að vel hafi gengið í skólamálum í bænum. Að auki sé Seltjarnarnesbær í samstarfi við Reykjavíkurborg um uppbyggingu fimleikaaðstöðu. Ásgerður segir það ánægjulegt þar sem skort hafi á bæði fjölmiðlaathygli og aðstöðu fyrir íþróttagreinar þar sem iðkendur séu að meirihluta stúlkur.

„Svo munum við um áramótin opna hjúkrunarheimili fyrir 40 íbúa. Við erum mjög stolt af því verkefni,“ segir Ásgerður. „Þetta er samfélagslegt verkefni sem við erum að taka þátt i með ríkinu og skiptir verulegu máli að séð sé vel um okkar íbúa.“

Nýr F-listi er borinn fram af fólki sem hefur margt hvert starfað með Sjálfstæðisflokknum og oddviti N-lista var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ásgerður segir þetta ekki valda Sjálfstæðismönnum ugg. „Við höldum okkar striki og tölum við íbúa eins og við höfum gert. Við óskum eftir að þau verk sem við höfum komið í framkvæmd á þess kjörtímabili og í gegnum árin verði skoðuð og metin.“ Hún segir að í ársbyrjun hafi verið haldið prófkjör þar sem allir Sjálfstæðismenn hafi getað gefi kost á sér. Auk þess hafi núverandi oddviti N-lista óskað eftir að halda áfram í skólanefnd eftir að hann gekk til liðs við Viðreisn og þá lýst ánægju með hvernig væri staðið að þeim málaflokki. Orðið hefði verið við þeirri beiðni.

Eigendur Bygggarðasvæðisins hafa uppi áform um byggingu fjölbýlishúsa og einbýlishúsa. Það er síðasta jörðin sem eftir er til byggingar á Seltjarnarnesi. „Þá er það fullbyggt,“ segir Ásgerður um Seltjarnarnesið.

Þá segir hún unnið að því að koma upp ferðamálastefnu og landvörslu, þeirrar síðarnefndu sé þörf í Gróttu þann tíma sem henni er lokað á varptíma.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV