Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fjórir geta rekið nýjan listframhaldsskóla

Píanó og nótnablað.
 Mynd: Horacio Contreras - RGBStock

Fjórir geta rekið nýjan listframhaldsskóla

17.05.2016 - 22:24

Höfundar

Fjórir tónlistarskólar uppfylla skilyrði sem sett eru fyrir því að reka nýjan listframhaldsskóla á sviði tónlistar. Skólinn er hluti af samkomulagi um eflingu tónlistarnáms. Tónlistarmaðurinn og kennarinn Sigurður Flosason segir að skólinn sé fyrsta nýja hugmyndin í 20 ár sem feli ekki í sér sparnað á þessum vettvangi.

Menntamálaráðuneytið auglýsti í dag eftir þátttakendum í auglýstu ferli um rekstur listframhaldsskóla á sviði tónlistar. Þessi skóli á að bjóða upp á framhaldsskólanám með áherslu á hljóðfæraleik og söng þannig að nemendur geti lokið stúdentsprófi af tónlistarbraut. Gerð er krafa um að bjóðendur hafi að lágmarki 10 ára reynslu við rekstur tónlistarskóla með minnst 50 nemendur á framhaldsstigi, sem og miðstigi í söng. Þá þurfi þeir að sýna fram á möguleika á að sinna klassískri og rytmískri tónlistarkennslu fyrir allt að 200 nemendur.  

Það eru helst rótgrónir tónlistarskólar sem uppfylla skilyrði um 50 framhaldsnemendur. Nánar tiltekið fjórir slíkir samkvæmt lauslegri talningu fréttastofu - Tónlistarskólinn í Reykjavík, Tónlistarskóli FÍH, Tónskóli Sigursveins og Tónlistarskóli Kópavogs. Enginn þeirra er með 200 framhaldsnemendur en tveir fyrstnefndu skólarnir ná því samanlagt. Og mögulegt er að fleiri en einn bjóði saman í reksturinn.

Almennt hefur þessu verið fagnað af tónlistarmönnum jafnt sem kennurum. Einn þeirra er Sigurður Flosason tónlistarmaður og aðstoðarskólastjóri. „Undanfarin 20 ár hefur lítið komið frá ráðamönnum, hvorki ríki né borg, af nýjum hugmyndum nema sparnaður og sparnaður á sparnað ofan.“

Því sé gott að sjá nýja hugmynd nú. Sigurður vonast til að þetta hjálpi þeim skólum sem mest kenna á framhaldsstigi. „Þeir hafa verið sérstaklega undanfarin fimm ár gífurlega fjársvelltir og eru bara kominr á vonarvöl, og skólinn sem ég starfa í, tónlistarskóli FÍH, er við það að fara á hausinn eins og staðan er í dag.“

Skaðinn sem skólarnir hafi orðið fyrir vegna deilu ríkis og borgar um fjármagn sé ófyrirgefanlegur. Tíminn sé hins vegar knappur ef kennsla á að hefjast í þessum skóla í haust. Sigurður segir miklu máli skipta að fjármagn þessa skóla sé hrein viðbót við það sem fyrir er. „Fólkið í skólunum, sérstaklega í Reykjavík, er orðið mjög mætt og þreytt á þessu öllu saman og sumir eru við það að bugast satt að segja. Þannig að það er kominn tími til að eitthvað jákvætt gerist og ég vona að þetta mál þróist á þann veg.“