Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fjórir formenn hafa efasemdir um tillöguna

18.04.2017 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjórir af sex nefndarformönnum Sjálfstæðisflokks gagnrýna fyrirhugaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á ferðaþjónustufyrirtæki. Tveir þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi, sem eiga hagsmuna að gæta í ferðaþjónustunni, ætla ekki að samþykkja fjármálaáætlunina óbreytta. Ríkisstjórnin er gagnrýnd fyrir skort á samráði við þingflokkinn.

Sérstaklega slæm áhrif á landsbyggðina

Tillaga ríkisstjórnarinnar um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna, úr neðra skattþrepi í efra, hefur verið gagnrýnd innan Sjálfstæðisflokksins. Fjórir af sex nefndarformönnum flokksins styðja ekki tillöguna óbreytta. 

Páll Magnússon, formaður atvinnuveganefndar, lýsir í Morgunblaðinu í dag yfir áhyggjum yfir því hversu lítil greiningarvinna hefur farið fram. Í samtali við fréttastofu segir Páll að áhrifin muni verða sérstaklega slæm fyrir landsbyggðina.

„Þetta mun rústa þeim fyrirtækjum”

Sjálfstæðismennirnir Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, hafa báðir lýst yfir efasemdum og Valgerður Gunnarsdóttir, flokkssystir þeirra í Norðausturkjördæmi og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, er alfarið á móti hækkuninni og segir hana vanhugsaða. Hún samþykkir ekki fjármálaáætlunina óbreytta.
 
„Ég tel þetta óheillavænlegt skref og muni hafa mest áhrif á minni og meðalstór fyrirtæki úti á landsbyggðinni sem hafa verið að fjárfesta mikið og gjörbreyta atvinnustigi í þorpum og bæjum úti um land. Og þetta mun rústa þeim fyrirtækjum,” segir hún. 

Gagnrýnir skort á samráði

Valgerður gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir skort á samráði við þingflokkana við gerð fjármálaáætlunarinnar og segir þessar hugmyndir koma henni í opna skjöldu. Synir Valgerðar reka gistiþjónustu á Norðurlandi.  

„Og þeir eru búnir, eins og aðrir víða út um land, að byggja upp. En þetta snýst náttúrulega ekki um þá, við erum að tala bara um atvinnuuppbyggingu út um landið,” segir Valgerður. 

Hefur miklar áhyggjur af þróuninni

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður í Norðausturkjördæmi, ætlar ekki að samþykkja fjármálaátlunina óbreytta. Njáll á 11% hlut í fyrirtækinu Sæluhúsi, ásamt bróður sínum, sem leigir út orlofshús til ferðamanna á Akureyri. 

„Ég held að við hefðum þurft töluvert meiri umræðu og fá frekari greiningarvinnu. Hún hefur verið takmörkuð,” segir Njáll. „Ég hef einbeitt mér að því að greina hagræna þætti ferðaþjónustu í gegn um tíðina og þetta hefur verið ákveðið áhugamál, þannig að ég lýsti strax yfir mínum athugasemdum við þetta. Og ég hef miklar áhyggjur af því hvernig menn eru að fara í þetta.”

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV