Fjórir alvarlega slasaðir

16.05.2019 - 17:03
Mynd: Skjáskot / RÚV
Fjórir eru alvarlega slasaðir eftir rútuslysið í Öræfum í dag, segir Grímur Hergeirsson, starfandi lögreglustjóri á Suðurlandi. Hann segir að aðrir séu lítið eða minna slasaðir. „Núna á þessari stundu er verið að vinna í því að flytja slasaða af vettvangi og á sjúkrahús.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og lenti á slysstað skömmu fyrir klukkan fimm í dag. Grímur segir að þeir sem eru með alvarlegustu meiðslin verði fluttir á Landspítalann í Fossvogi með þyrlunni. Hún var í þann mund að fara í loftið klukkan fimm. Farið verður með aðra sem voru í rútunni á Höfn á Hornafirði. Þaðan flýgur flugvél Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur með slasað fólk, annað en það sem fer með þyrlunni. Danski flotinn bauð fram aðstoð sína og er þyrla hans á leiðinni á slysstað. Að auki flýgur sjúkraflugvél frá Akureyri í Skaftafell og tekur þar hluta slasaðra.

Mynd: RÚV / RÚV
Grímur Hergeirsson í útvarpsfréttum klukkan fimm. Viðtalið efst var tekið 20 mínútum fyrr.

Björgunarsveitir frá Reykjavík til Hafnar voru kallaðar út. Björgunarsveitir, sjúkraflutningamenn og lögregla eru komin á staðinn. Fleiri eru á leiðinni. „Það eru í raun og veru allir kallaðir til þegar svona verður. Menn reyna að nýta alla möguleika í björgunarstarfi,“ segir Grímur.

„Samkvæmt upplýsingum af vettvangi er þetta hópur erlendra ferðamanna, 32 ferðamenn og bílstjóri,“ segir Grímur. 

Slysstaðurinn er mitt á milli Hafnar og Kirkjubæjarklaustur. Það tekur því langan tíma að koma viðbragðsaðilum á vettvang. Nokkurn tíma hefur tekið að ná góðri yfirsýn á það hversu alvarlegt slysið er. Í fyrstu var talið að 53 hefðu verið í rútunni en síðar var staðfest að það hefði verið 33, að bílstjóranum meðtöldum. Lögregla segir að fjórir séu alvarlega slasaðir en Landspítalinn segir í tilkynningu að fimm hafi verið rauðmerktir, það þýðir að viðkomandi eru alvarlega slsaðir. Aðrir eru hinir 28 í rútunni merktir gærnir eða gulir, lítið og minna slasaðir og til frekara mats og skoðunar.

Tilkynning um slysið barst fimm mínútur eftir þrjú. Þá voru allar bjargir virkjaðar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd

Suðurlandsvegur er lokaður við slysstað. Langar bílaraðir hafa myndast.

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV