„Fjörðurinn er fullur af síld“

23.11.2013 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Bæjarstjórnir Grundarfjarðar og Stykkishólms, funduðu í morgun, með hagsmunaaðilum um síldveiðar í Kolgrafarfirði. Bæjarstjórnarmenn hafa áhyggur af öryggi sjómanna þegar siglt er undir brúna. Fjörðurinn er fullur af síld, segir trillusjómaður sem þarna er að veiðum.

Sigurborg Kr. Hannesdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grundafirði, segir að það sé þess virði að reyna þarna veiðar, þótt aðeins náist brot af þeirri síld sem líklega er kominn inn í fjörðinn.

Sigurborg hefur þó áhyggjur af öryggismálum þar sem sjómenn þurfa að sigla undir brúna sem þverar Kolgrafarfjörð. „Heimamenn þekkja þetta nokkuð vel og vita hvað ber að varast. Við erum hrædd við það fari að steyma þarna bátar, hvaðanæva að af landinu - það þarf að varast brúna og mælitæki.“

Sigurborg segir að verið sé að skoða aðstöðu til löndunar, það skýrist í dag og fer eftir kostnaði og mati. „Og síðan verða sett upp fyrir kvöldið ljós fyrir brúna, sem er gríðarlega mikilvægt.“

Í kringum tíu bátar eru á veiðum inn í firðinum og fleiri eru væntanlegir. Einn þeirra sem er þarna á veiðum er Sveinn Ragnarsson á Didda Helga frá Ólafsvík. Hann segir fjörðinn vera spegilsléttan, fullan af síld og hann hafi þurft að kalla á aukamannskap til að draga inn netinn því þau fyllist um leið og þau séu sett út. 

Sveinn segir að hjartað sitt hafi slegið 200 slög þegar hann sigldi undir brúna í nótt. „En þetta er í sjálfu sér ekkert mál í birtu. Það á ekkert að vera neitt vandamál að fara þarna inn þótt það sé straumur.“

Sveinn segir að það sem smábátarnir veiði sé bara dropi í hafið. Þeir séu komnir með um tvö tonn en það séu einhver fleiri þúsund tonn í firðinum. „Svo eru að koma bátar til að taka við fiskinum og landa fyrir okkur.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi