Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjórðungur kvíðinn vegna COVID-19

20.03.2020 - 17:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um fjórðungur landsmanna finnur fyrir kvíða vegna COVID-19 faraldursins, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Fjórir af hverjum tíu finna hins vegar fyrir litlum eða engum kvíða og um þrír af hverjum tíu finna hvorki til mikils né lítils kvíða. Konur finna frekar fyrir kvíða vegna COVID-19 en karlar. 30 prósent kvenna finnur fyrir kvíða vegna veirunnar en 24 prósent karla.

Ríflega fimmtungur Íslendinga óttast mikið að smitast af COVID-19 en nær fjórir af hverjum tíu óttast það lítið. Sama hlutfall, 40 prósent, óttast það hvorki mikið né lítið. Þegar sömu spurningar var spurt í lok janúar og byrjun febrúar sögðust fleiri en nú óttast lítið að smitast, eða nær helmingur.

Sextugir og eldri óttast mest að smitast

Konur óttast meira en karlar að smitast af COVID-19, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Fólk yfir sextugu óttast það mest, 26 prósent þeirra óttast mikið af smitast af veirunni. Fólk undir þrítugu óttast það minnst. Í þeim aldursflokki eru það 16 prósent sem óttast mikið að smitast. Fólk sem hefur lægri fjölskyldutekjur óttast smit að jafnaði meira en þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur.

Fjórir af hverjum tíu hafa miklar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum COVID-19 á Íslandi. Þrír af hverjum tíu hafa litlar áhyggjur af þeim og svipað hlutfall hefur hvorki miklar né litlar áhyggjur af þeim. Konur hafa meiri áhyggjur en karlar af heilsufarslegum áhrifum COVID-19 á Íslandi, og eldra fólk hefur meiri áhyggjur en yngra fólk. Þeir sem hafa lægri fjölskyldutekjur hafa að jafnaði meiri áhyggjur en þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur.

Um 70% hafa áhyggjur af efnahagslegum áhrifum

Þeir eru fleiri sem hafa áhyggjur af efnahagslegum áhrifum COVID-19 en þeir sem hafa áhyggjur af heilsufarlegum áhrifum. Nær sjö af hverjum tíu hafa miklar eða frekar miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum faraldursins. Færri en einn af hverjum tíu hefur litlar áhyggjur af þeim og um fimmtungur hefur hvorki miklar né litlar áhyggjur.

Líklegra er að íbúar landsbyggðarinnar hafi litlar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum COVID-19 en íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni hafa 12 prósent litlar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum veirunnar en á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið 8 prósent. Þegar kemur að hlutfalli þeirra sem hafa miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum þá er hlutfallið nokkuð jafnt. Á landsbyggðinni hafa 71 prósent miklar áhyggjur en á höfuðborgarsvæðinu eru það 69 prósent.  

Könnunin var gerð á netinu 13. til 16. mars 2020. Í úrtakinu voru 1.272, 18 ára og eldri af öllu landinu, valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfall var 55,1 prósent. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir