Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fjórðungur Íslendinga prófað fíkniefni

27.10.2013 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjórðungur Íslendinga hefur prófað að neyta eiturlyfja. Um 10.000 manns nota kannabis að staðaldri, segir Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. Hann telur að andstaða samfélagsins við eiturlyfjaneyslu skýri af hverju fleiri neyti þeirra ekki en raun ber vitni.

Helgi Gunnlaugsson lét kanna hve margir á aldrinum 18 til 74 ára hefðu prófað fíkniefni. Í ljós kom að fjórðungur landsmanna hefur neytt kannabisefna.  Langflestir prófa einu sinni eða nokkrum sinnum eða neyta efnisins tímabundið en vaxa svo upp úr því. Neyslan er fyrst og fremst meðal yngri hópa og er hverfandi hjá þeim sem eldri eru. Helgi segir að úr gögnunum megi lesa að um 10.000 fullorðinna noti kannabisefni reglulega.

Helgi hefur líka skoðað gögn neytendur harðari fíkniefna og sprautufíkla: „ Þetta skiptir kannski einhverjum hundruðum í íslensku samfélagi og þar er vandinn djúptækur. Sá vandi er félagslegur".

Margir hafi ekki lokið grunnskólaprófi, og hafi minni reynslu af vinnumarkaðinum en jafnaldrar þeirra. Þá eigi sprautufíklar gjarnan við heilsufarsvanda að stríða. Margir hafi reynt sjálfsvíg og verið í afbrotum.  

„Neyslan hún kannski viðheldur þessum erfiðleikum, en þegar maður greinir þessi gögn nánar þá er ýmislegt sem bendir til að þessi félagslegi vandi hafi verið til staðar áður en þessir einstaklingar hófu neyslu þessara efna", segir Helgi.

Hann segir að litið sé á fíkniefnavanda sem mikla ógn í íslensku samfélagi: „Þessi andstaða hefur að mörgu leyti haldið aftur af fíkniefnaneyslu á Íslandi. Hún er þrátt fyrir allt mjög lítil í samfélaginu". Margir séu til í að prófa, en eftir því sem aldurinn færist yfir hætti neyslan nánast alveg.