Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjórðungur íbúa af erlendum uppruna

Mynd: Rögnvaldur Már Helgason / RÚV
Fjórðungur íbúa Skútustaðahrepps er erlendir ríkisborgarar. Þar hefur verið mótuð sérstök fjölmenningarstefna sem hefur verið tæpt ár í undirbúningi. Í henni er meðal annars tekið á því hvernig sveitarfélagið geti veitt sem besta þjónustu og hvernig skólar geti tekið vel á móti nemendum af erlendum uppruna.

„Þetta er fjölmenningarlegt samfélag og hér hefur orðið mjög mikil fólksfjölgun undanfarin ár, rúmlega 40 prósent síðan 2013, sem er svolítið hressilegt og hefur reynt svolítið á innviðina hjá okkur,“ sagði Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

„Fjölgunina má að stórum hluta skýra þannig að atvinnulífið sveiflast í takt við uppsveiflu í ferðamannaþjónustu, þar er uppistaðan erlent vinnuafl. Við erum í þeirri óvenjulegu stöðu að fjórðungur íbúa hér í sveit eru erlendir ríkisborgarar og þess vegna skiptir mjög miklu máli að bjóða þau velkomin í okkar samfélag.“ 

Fjölmenningarstefnan hefur verið tæpt ár í undirbúningi og segir Þorsteinn að reynt hafi verið að nálgast málið frá mörgum hliðum og hægt er. Stefnan snýst um þjónustu sveitarfélagsins almennt en líka um mannlífið, að sögn Þorsteins. Hvað sveitarfélagið geti lagt af mörkum til að efla gott mannlíf fyrir alla íbúa. Í stefnunni er einnig tekið á því hvernig hægt sé að taka sem best á móti nemendum af erlendum uppruna. 

Í nágrannasveitarfélaginu Norðurþingi er starfandi fjölmenningarfulltrúi í hálfu starfi. Til skoðunar er að fjölmenningarfulltrúinn verði í fullu starfi í þremur sveitarfélögum, Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir