Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fjórðungur ánægður með nýja ríkisstjórn

23.01.2017 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Samkvæmt nýrri könnun Maskínu eru 25,3 prósent landsmanna ánægð með nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þá voru 47 prósent þátttakenda í könnunni óánægð með ríkisstjórnina.

Í könnuninni kemur sömuleiðis fram að karlar séu mun ánægðari með nýju ríkisstjórnina en konur. Um þrjátíu prósent karlkyns svarenda eru ánægðir með ríkisstjórnina, á meðan 20 prósent kvenna sem tóku þátt eru sama sinnis. Þá eru rúm 39 prósent karla óánægð með ríkisstjórnina, og rösk 54 prósent kvenna.

Hlutfall ánægðra hækkar samhliða hærri tekjum. Þannig eru rösklega átján prósent þeirra með lægstu tekjurnar ánægð með nýja ríkisstjórn en tæplega 32 prósent þeirra sem hæstu tekjurnar hafa. 

Þá kemur varla á óvart að stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna eru ánægðari en stuðningsmenn annarra flokka. Á bilinu 77 til 79 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar eru ánægð með nýju ríkisstjórnina, á meðan 31 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar eru ánægð.

Ánægðustu kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna með nýja ríkisstjórn koma úr röðum Framsóknarmanna, en 13 prósent þeirra eru ánægðir með niðurstöðuna. Á sama tíma er innan við eitt prósent kjósenda Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna ánægt með nýju ríkisstjórnina.

Svarendur könnunarinnar voru 810 manns, á aldrinum 18 til 75 ára, en þeir koma úr Þjóðgátt Maskínu sem er panelhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá og svara á netinu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Maskínu. Könnunin var framkvæmd dagana 12. til 23. janúar.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV