Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjórðungur allra barna á Íslandi í vinnu

28.05.2018 - 22:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjórðungur barna á Íslandi er á vinnumarkaði, samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Þar af voru 37 börn undir fimm ára á launaskrá í fyrra. 

Við þekkjum öll sögur af því hvernig heilu bæjarfélögin taka þátt þegar vertíðaraflinn kemur í land, jafnt börn sem fullorðnir. Og það virðist vera að íslensk börn séu almennt óvenju virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Næstum tuttugu þúsund börn störfuðu á íslenskum vinnumarkaði í fyrra, eða fjórðungur allra barna á landinu.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segir það dæmigert fyrir íslenskt samfélag að leggja mikla áherslu á vinnu og dugnað. „Við höfum haft þessa vinnumenningu hér á Íslandi og ég held að mín kynslóð og þeir sem eldri eru líta svo á að þetta hafi verið gott fyrir okkur að byrja sem fyrst að vinna, með skóla eða í sumarstarfi, að við höfum lært mikið af því og það er auðvitað alveg rétt að börn geta lært mikið af þessu en hins vegar göngum við of langt í þessu og allt of ung börn eru kannski að taka að sér verkefni sem þau ráða ekki við eða við aðstæður sem eru bara ekki vænar fyrir börn,“ segir Salvör.

Salvör segir þetta ólíkt því sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þá hefur Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna gert athugasemd við að börn á skólaskyldualdri séu á vinnumarkaði. „Í nágrannalöndunum tíðkast þetta ekki,“ segir Salvör. „Auðvitað er kannski eitthvað um það en það er ekkert í líkingu við það sem tíðkast hér á landi og hefur tíðkast  í áratugi.“

37 börn undir fimm ára í vinnu

Börnum yngri en 13 ára er einungis heimilt að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi gegn greiðslu, og þá með sérstöku leyfi frá Vinnueftirliti ríkisins. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru næstum 700 börn tólf ára og yngri á vinnumarkaði í fyrra, þar af voru 37 yngri en fimm ára. „Það eru auðvitað reglur um það að þau mega ekki vinna erfiða vinnu þegar þau eru ung, en auðvitað þurfa foreldrar að vera á varðbergi alltaf þegar um börn er að ræða, að þau séu ekki að vinna of mikið, að það sé ekki að bitna á þeirra tómstundum, hvíld og námi, og auðvitað er það þannig að þegar þú ert að vinna einhverja klukkutíma á viku að þá ertu ekki að gera eitthvað annað á meðan, þannig að það getur bitnað á öðru starfi hjá börnum og bitnað á þeirra þroska.“

Miðað við hversu stór hluti barna er á vinnumarkaði, má leiða líkur að því að mikill meirihluti elstu barnanna sé í vinnu. „Við kannski erum að hvetja börn of mikið og of ung að fara út á vinnumarkaðinn að vinna, og það er ekki endilega þannig að það sé æskilegt,“ segir Salvör.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV